Körfubolti

Borgar og úlfarnir unnu Curry-lausa stríðsmenn

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Karl-Anthony Towns fór fyrir liði Minnesota Timberwolves gegn Golden State Warriors.
Karl-Anthony Towns fór fyrir liði Minnesota Timberwolves gegn Golden State Warriors. ap/Stacy Bengs

Minnesota Timberwolves nýtti sér fjarveru Stephens Curry og vann Golden State Warriors, 119-99, í NBA-deildinni í körfubolta í nótt.

Karl Anthony-Towns var öflugur í liði Minnesota með 26 stig og ellefu fráköst. Varamenn Úlfanna voru sömuleiðis góðir en liðið fékk alls 57 stig af bekknum. Minnesota er í 7. sæti Vesturdeildarinnar, aðeins einum sigri á eftir Denver Nuggets sem er í 6. sætinu.

Jordan Poole skoraði tuttugu stig fyrir Golden State og Jonathan Kuminga nítján. Stríðsmennirnir eru í 2. sæti Vesturdeildarinnar.

Utah Jazz komst aftur á sigurbraut þegar liðið vann Denver á útivelli, 102-125. Donovan Mitchell skoraði 31 stig fyrir Utah og Bogdan Bogdanovic 21. Rudy Gobert var með átján stig og nítján fráköst. Utah er í 3. sæti Vesturdeildarinnar.

Myndarleg þreföld tvenna Nikolas Jokic dugði skammt fyrir Denver. Serbinn skoraði 25 stig, tók fimmtán fráköst og gaf fjórtán stoðsendingar.

Topplið Vesturdeildarinnar, Phoenix Suns, bar sigurorð af Detroit Pistons, 108-135. Devin Booker skoraði þrjátíu stig fyrir Phoenix sem hefur unnið þrjá leiki í röð. JaVale McGee og Cameron Payne skoruðu tuttugu stig hvor.

Þá vann botnlið Vesturdeildarinnar, Houston Rockets, sigur á Sacramento Kings, 112-118. Kevin Porter og Chris Wood skoruðu báðir 23 stig fyrir Houston.

Úrslitin í nótt

  • Minnesota 119-99 Golden State
  • Denver 102-125 Utah
  • Detroit 108-135 Phoenix 
  • Sacramento 112-118 Houston

NBA er á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. NBA körfuboltinn er hluti af Stöð 2 Sport erlent sem kostar 3.990 krónur á mánuði.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×