Handbolti

Spánverjar og Danir öruggir áfram í milliriðla á EM

Atli Arason skrifar
Mikkel Hansen var markahæstur Dana í kvöld.
Mikkel Hansen var markahæstur Dana í kvöld.

Fjórir leikir fóru fram í kvöld á EM i handbolta í A, C, E og F riðli. Spánverjar og Danir tryggðu sig áfram í milliriðla á meðan það er enn þá spenna í hinum riðlunum fyrir lokaumferðina.

Spánn vann Svíþjóð 32-28 í stórleik kvöldsins á EM í handbolta. Sigurinn þýðir að Spánverjar eru öruggir með sæti í milliriðlana en þeir eru nú á toppi E-riðils með með 4 stig. Spánverjar leika gegn Bosníu í lokaleik sínum í riðlinum á mánudaginn næsta á meðan Svíar mæta Tékkum, í viðureign sem mun ráða því hvort liðið fylgir Spánverjum áfram.

Danir fóru auðveldlega í gegnum Slóvena en Danmörk vann leikinn með 11 mörkum, 34-23. Sigurinn þýðir að Danir eru, líkt og Spánverjar, öruggir áfram í milliriðla. Danmörk er á toppi A-riðils með 4 stig og í lokaleik sínum í riðlakeppninni á mánudag leika þeir við Norður Makedóníu. Slóvenar leika sama dag úrslitaleik við Svartfjallaland um hvort liðið fylgir Dönum áfram í milliriðla.

Króatar unnu Serba 23-20 í C-riðli. Sigurinn var líflína fyrir Króata sem töpuðu gegn Frökkum í fyrsta leik. Króatía getur því með sigri í lokaleik sínum gegn Úkraínu á mánudag tryggt sér sæti í milliriðla, fari ekki svo að Serbar vinni Frakka í hinum leik riðilsins sem fer fram sama dag.

Mest spennandi leikur dagsins var viðureign Noregs og Rússlands í F-riðli. Rússar unnu með einu marki, 23-22, en Noregur fékk tækifæri undir lok leiks til að jafna en það gekk ekki eftir. Sander Sagosen átti ekki sinn besta leik með aðeins 4 mörk úr 11 tilraunum. Ósigur Noregs þýðir að þeir verða að vinna Litháen í lokaleik sínum á mánudaginn og vonast eftir hagstæðum úrslitum úr leik Rússa og Slóvaka á sama tíma.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.