Körfubolti

Ég skal svara þessari spurningu eftir helgi

Siggeir Ævarsson skrifar
Pétur Már á hliðarlínunni í kvöld.
Pétur Már á hliðarlínunni í kvöld. Vísir/Bára Dröfn

Vestramenn fengu sannkallaða líflínu í fallbaráttunni í Subway deildinni í kvöld, þegar þeir lögðu ÍR í TM Hellinum, 78-79.  Við spurðum Pétur Má Sigurðsson, þjálfara Vestra, hvernig tilfinningin væri svona rétt eftir leik.

„Góð. Tilfinningin er alltaf góð þegar við vinnum. Við erum náttúrulega búnir að vera í hörkuleikjum í allan vetur en náðum að koma þessum í höfn, og það var ótrúlega fínt. Við erum sáttir með það. Sigur er sigur, nú er það bara næsti leikur.“

ÍR voru 11 stigum yfir eftir fyrsta leikhlutann en Vestri vann næstu tvo með 16 stigum samtals. Við spurðum Pétur hvað hefði breyst eftir 1. leikhlutann. Hann skóf ekkert utan af hlutunum:

„Við vorum bara lélegir. Lélegir varnarlega og það brýtur niður sjálfstraustið og við vorum að taka vondar ákvarðanir sóknarlegar. Svo náðum við að loka á þá varnarlega og náðum þá ágætis sóknarleik á köflum en vorum svolítið stirðir. Eins og þú sást þá vorum við næstum því búnir að henda þessu frá okkur. En, sigur er sigur.“

Hvernig horfir Pétur svo á næstu leiki og restina af tímabilinu og baráttuna framundan?

„Ég bara veit það ekki. Ég skal svara þessari spurningu eftir helgi“ – sagði Pétur að lokum og var þarna væntanlega að vísa í óvissuna með framtíð tveggja erlendra leikmanna liðsins, þeirra Ken-Jah Bosley og Julio Assis, en samkvæmt heimildum Boltinn lýgur ekki þá var þetta síðasti leikur þeirra fyrir liðið. Mögulega mun þessi sigur þó breyta einhverju um þá ákvörðun.


Subway-deildirnar í körfubolta eru á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. Subway-deildin er hluti af Stöð 2 Sport Ísland sem kostar 3.990 krónur á mánuði.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.