Heilsa

„Gerir mér kleift að lifa lífinu mínu til hins ítrasta“

Sylvía Rut Sigfúsdóttir skrifar
Anna Eiríksdóttir
Anna Eiríksdóttir Foto: Vilhelm Gunnarsson/Vilhelm Gunnarsson

„Hreyfum okkur saman eru stuttir fimmtán mínútna æfingaþættir fyrir alla sem hafa heilsu til. Æfingarnar eru fjölbreyttar og er markmiðið með þessu þáttum klárlega að fá sem flesta landsmenn til að hugsa betur um heilsuna og hreyfa sig smá á hverjum degi,“ segir Anna Eiríksdóttir þáttastjórnandi æfingaþáttanna. 

„Æfingarnar þurfa ekki að vera langar til að skila árangri og hvet ég því alla til að vera með og njótum þess að hreyfa okkur saman.“

Fyrsti þátturinn af Hreyfum okkur saman var sýndur á Lífinu á Vísi í gær og er einnig aðgengilegur á Stöð 2+ efnisveitunni. Anna segir að æfingarnar ættu að henta öllum. 

„Hver og einn vinnur á sínum hraða í æfingunum og útskýri ég þær vel og býð upp á valkosti í mest krefjandi æfingunum sem ég hvet fólk til þess að nýta sér þegar það er að byrja. Það er ekki bara gott líkamlega að hreyfa sig og hugsa vel um sig heldur líka andlega. Á móti æfingunum er frábært að fara í göngutúra og fá sér frískt loft í leiðinni. Heilsan er það dýrmætasta sem við eigum og því mikilvægt að hugsa vel um hana.“

Elskar að hvetja fólk

Anna er mikill reynslubolti þegar kemur að æfingum og hefur starfað í þessum bransa allan sinn starfsferil. 

„Ég hef kennt hóptíma og unnið við að þjálfa fólk í 26 ár eða síðan ég var 18 ára. Ég byrjaði í Aerobic Sport hjá Magnúsi Scheving og félögum, fór þaðan yfir á Planet Pulse til Jónínu Ben og er svo búin að starfa síðustu 18 ár í Hreyfingu sem deildarstjóri og hóptímakennari undir stjórn Ágústu Johnson.“

Æfingarþættirnir verða tveir á viku, á mánudögum og fimmtudögum. 

„Ég fékk það frábæra tækifæri að búa til þessa þætti með Vísi og Stöð 2+ sem mér finnst ótrúlega spennandi verkefni því ég elska að hvetja fólk til þess að hreyfa sig og hugsa betur um heilsuna sína. Ég er að fara af stað með þessa þætti til að hvetja alla landsmenn til að hreyfa sig með mér og hugsa vel um sig sem skiptir miklu máli, sérstaklega á tímum sem þessum,“

Æfingarnar þurfa ekki að vera langar

Einu áhöldin sem Anna notar í þáttunum eru dýna og stóll. Hún notar stundum handlóð eða ketilbjöllu en ef fólk á það ekki til á heimilinu er hægt að nota eitthvað annað í staðinn eins og vatnsbrúsa, þvottabrúsa eða annað. Þættirnir henta bæði byrjendum og lengra komnum.

„Ég hef sjálf æft íþróttir frá því ég man eftir mér. Ég stundaði frjálsar frá sex ára aldri og þar til ég færði mig yfir í þolfimina og ræktina 16 ára gömul. Fyrir mér er hreyfing jafn mikilvæg og að borða og sofa. Ég þekki ekkert annað en að hreyfa mig og elska tilfinninguna að geta gert allt sem ég vil, hvort sem það er að skella mér í fjallgöngu, hjólaferð, á skíði eða út að hlaupa. Fyrir mér eru það forréttindi og gerir mér kleift að lifa lífinu mínu til hins ítrasta,“ útskýrir Anna. 

Anna hefur þjálfað Íslendinga síðan hún var 18 ára gömul.Vísir/Saga Sig

„Ég ráðlegg fólki sem er að byrja að fara rólega af stað. Fylgja þessum fimmtán mínútna æfingamyndböndum tvisvar í viku til að byrja með og fara út í göngutúra á móti. Það er gott að hreyfa sig smá annan hvern dag en vinna sig svo upp í að hreyfa sig alveg fimm til sex sinnum í viku og taka góðan hvíldardag á móti. Hafið samt í huga að æfingarnar þurfa alls ekki að vera langar til að skila góðum árangri og gott að ákefðin sé breytileg yfir vikuna.“

Anna hvetur alla til að byrja að hreyfa sig og hugsa vel um sig. 

„Margir eru að lenda í sóttkví og einangrun þessa dagana og þess vegna frábært að fá svona góðar heimaæfingar til að fylgja eftir heima. Heilsan okkar er dýrmæt og við verðum að hlúa vel að henni. Hreyfum okkur saman.“

Hægt er að horfa á fyrsta þáttinn í spilaranum hér fyrir neðan. Næsti þáttur kemur á Vísi og Stöð 2+ á fimmtudag.


Tengdar fréttir

Hreyfum okkur saman: Styrkur og liðleiki

Anna Eiríksdóttir fór af stað með nýja þætti hér á Lífinu á Vísi í dag. Þættirnir eru einnig aðgengilegir á Stöð 2+ efnisveitunni. Um er að ræða heimaæfingar sem allir geta gert þar sem þeim hentar. Þættirnir koma út tvisvar í viku, á mánudögum og fimmtudögum.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.