Handbolti

Danir fljúga á EM í handbolta með al­mennu far­þega­flugi en skilja einn eftir

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Danski landsliðsmarkvörðurinn Jannick Green Krejberg er enn í einangrun vegna kórónuveirusmits.
Danski landsliðsmarkvörðurinn Jannick Green Krejberg er enn í einangrun vegna kórónuveirusmits. epa/Diego Azubel

Heimsmeistarar Dana ferðuðust til Ungverjalands í morgun þar sem þeir taka þátt í Evrópumótinu í handbolta. Það voru þó ekki allir sem fengu að fara með í flugið.

Það er ljóst að smit á þessum tíma gæti haft slæmar afleiðingar fyrir lið sem eru á leiðinni á Evrópumeistaramótið í handbolta þótt að það hafi breytt miklu þegar evrópska handboltasambandið létti á kröfum sínum um fjórtán daga sóttkví eftir smit.

Danir ákváðu þrátt fyrir smithættu að fljúga með lið sem í almennu farþegaflugi. Íslenska landsliðið flýgur sem dæmi til Ungverjalands á morgun með einkaflugi.

Dönsku leikmennirnir fóru í kórónuveirupróf í gær og greindust þeir allir neikvæðir sem höfðu verið að æfa með liðinu síðustu daga. Danski hópurinn varð þó að skilja eftir einn úr EM-hópnum en það er markvörðurinn Jannick Green.

Jannick Green fékk jákvæða niðurstöðu úr kórónuveiruprófi fyrir viku síðan og hafði frá þeim tíma verið í einangrun. Hann fékk síðan aftur jákvæða niðurstöðu í gær og gat því ekki ferðast með liðinu í dag.

Green hefur verið fastur maður í danska liðinu undanfarin ár en nú er óvíst hvort eða hvenær hann kemur til móts við liðið.

Danir unnu 35-25 sigur á Noregi á laugardaginn í síðasta undirbúningsleik sínum fyrir Evrópumótið.

Evrópska handboltasambandið tók upp nýjar sóttvarnarreglur í síðustu viku eftir pressu frá samböndum þjóðanna. Smitaður leikmaður þarf hér eftir að fara í fimm daga einangrun en sleppur úr henni við neikvætt próf. Hann þarf síðan annað neikvæð próf meira en sólarhring síðar til að geta snúið aftur inn á völlinn á þessu Evrópumóti.

Fyrsti leikur Dana á EM er á móti Svartfellingum á fimmtudaginn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×