Handbolti

Spiderman mynd og spurningakeppni hjá strákunum okkar

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Strákarnir sjást hér horfa á Spiderman myndina í Sambíóunum í gær.
Strákarnir sjást hér horfa á Spiderman myndina í Sambíóunum í gær. HSÍ

Íslenska karlalandsliðið í handbolta þarf að verja sig fyrir veirunni þessa daganna enda gæti smit svo stuttu fyrir Evrópumót verið dýrkeypt. Strákarnir okkar láta sér ekki leiðast þrátt fyrir að vera fastir í búbblunni.

Handknattleiksambandið hefur sagt frá því hvaða strákarnir hafa verið að gera undanfarna daga.

Þetta eru mjög mikilvægir undirbúningsdagar fyrir mótið. Æfingarnar skipta enn meira máli nú þegar einu æfingarleikjum liðsins var frestað þar sem Litháar tóku ekki áhættuna að fljúga til Íslands en þeir áttu að spila hér bæði í kvöld sem og á sunnudaginn.

Íslenska liðið mun fljúga til Ungverjalands á þriðjudaginn og fyrsti leikur á Evrópumótinu er síðan á móti Portúgal eftir nákvæmlega eina viku.

Dagurinn í gær hjá íslenska hópnum hófst á morgunmat og svo tók við myndbandsfundur með Guðmundi Guðmundssyni, þjálfara liðsins. Í framhaldinu hélt liðið á æfingu í Víkina og var áherslan lögð á sóknarleik.

Eftir hádegið hélt svo hópurinn í Smárabíó og sáu nýjustu Spiderman myndina. Dagurinn endaði svo á liðsfundi og léttri spurningakeppni. „Langur dagur að baki og sem fyrr andinn góður í hópnum og allir í fínu formi,“ sagði í fréttinni á miðlum HSÍ.

Það má sjá myndir frá deginum hér fyrir neðan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×