Innherji

Vogunarsjóðurinn Taconic kaupir fimm prósenta hlut í Skeljungi

Hörður Ægisson skrifar
Jón Ásgeir Jóhannesson er stjórnarformaður Skeljungs.
Jón Ásgeir Jóhannesson er stjórnarformaður Skeljungs. Vísir/Vilhelm

Bandaríski vogunarsjóðurinn Taconic Capital, sem var stærsti hluthafi Arion banka um nokkurt skeið, hefur keypt rúmlega fimm prósenta hlut í Skeljungi sem rekur meðal annars 60 bensínstöðvar undir merkjum Orkunnar á Íslandi.

Kaupverðið var rúmlega 1.400 milljónir króna, eða á genginu 14,6 krónur á hlut að nafnvirði, en á sama tíma minnkaði lífeyrissjóðurinn Gildi, sem var fyrir söluna næst stærsti hluthafi Skeljungs, hlut sinn í félaginu úr 10,3 prósent í 2,7 prósent.

Viðskiptunum var flaggað í Kauphöllinni rétt í þessu en auk Gildis losuðu einnig aðrir lífeyrissjóðir í hluthafahópi Skeljungs, einkum Birta, um hlut sinn. Hlutabréfaverð Skeljungs hefur hækkað um liðlega 4,3 prósent í dag í tæplega þriggja milljarða króna viðskiptum.

Taconic Capital var á meðal þeirra fjárfesta og fjármálastofnana sem komu að fjármögnun á skuldsettri yfirtöku félagsins Strengs, sem hjónin Ingibjörg Pálmadóttur og Jón Ásgeir Jóhannesson og Sigurður Bollason fara meðal annars fyrir, á Skeljungi í ársbyrjun 2021, samkvæmt heimildum Innherja. Eignarhlutur Strengs er í dag rétt yfir 50 prósent en markaðsvirði Skeljungs stendur í 28 milljörðum og hefur hækkað um 60 prósent á einu ári.

Verulegar breytingar hafa orðið á starfsemi Skeljungs að undanförnu þar sem eignir hafa verið seldar, reksturinn stokkaður upp með stofnun nýrra dótturfélaga og tilgangi félagsins breytt þannig að megintilgangur þess verði fjárfestingastarfsemi. Þá hafa stjórnendur Skeljungs hætt við fyrri áform sín um afskráningu heldur er nú horft til þess að starfrækja fjárfestingafélag sem verður skráð á hlutabréfamarkað.

Gildi lífeyrissjóður, sem nú hefur selt meirihluta bréfa sinna í Skeljungi, lagðist ýmist gegn eða sat hjá þegar greidd voru atkvæði um tillögur stjórnar um breytingar á samþykktum félagsins í október á síðasta ári.

Í lok síðasta árs gekk Skeljungur frá sölu á Magni til Sp/f Orkufélagsins. Endanlegt kaupverð nam 12,2 milljörðum króna en Skeljungur er skuldbundinn til að endurfjárfesta 2,8 milljörðum króna í Orkufélaginu gegn því að eignast ríflega 48 prósenta hlut. Þá skrifaði Skeljungur undir viljayfirlýsingu um sölu fasteigna fyrir 8,8 milljarða króna til fasteignaþróunarfélagsins Kaldalóns. Þeir fjárfestar sem standa að baki Strengi eru sömuleiðis ráðandi hluthafar í Kaldalóni.

Þegar Strengur gerði yfirtökutilboð í Skeljung í nóvember 2020 ári boðaði félagið miklar breytingar á rekstrinum og vísaði þá meðal annars til þess að ekki væri hægt að reiða sig á tekjur af bensínsölu á neytendamarkaði til lengri tíma litið. Þannig yrði stefnt að því að selja ýmsar eignir á borð við lóðir, fasteignir og rekstrareiningar. Þá var greint frá því í fyrra að stjórn Skeljungs hefði ákveðið að stofna sérstakt félag utan um olíubirgðastöð þess við Örfirisey, einkum í þeim tilgangi að „skerpa línur í rekstri félagsins á Íslandi“, eins og það var orðað í tilkynningu.

Félagið hefur á sama tíma komið að ýmsum fjárfestingum ótengdum eldneytissölu, meðal annars kaupum á öllu hlutafé í apótekskeðjunni Lyfjavali síðasta sumar. Skeljungur rekur einnig dagvöruverslanir undir merkjum EXTRA hér á landi, fer með fjórðungshlut í Wedo, sem á og rekur vefverslanir á borð við Heimkaup.is, auk þess að hafa fjárfest í Brauði & Co og Gló.

Vogunarsjóðurinn Taconic Capital seldi allan 24 prósenta hlut sinn í Arion banka á fyrstu þremur mánuðum síðasta árs. Til viðbótar því að koma að fjármögnun á yfirtökutilboði Strengs í Skeljung fyrir ári þá veitti sjóðurinn meðal annars Cambridge Plaza Hotel Company, sem stendur baki fimm stjörnu Marriot Edition-hótelinu við Hörpu í Austurhöfn, framkvæmdafjármögnu til skamms tíma í formi brúarláns að fjárhæð 32,6 milljónir Bandaríkjadala, jafnvirði rúmlega fjórir milljarðar króna.

Viðskiptin við yfirtöku Strengs á Skeljungi, sem af þeim sem til þekkja eru sögð hafa verið einstaklega flókin í framkvæmd, voru fjármögnuð með veðlánum frá bönkum, víkjandi lánum, brúarlánum auk eiginfjárframlags. Auk Taconic var yfirtakan fjármögnuð með aðkomu Kviku og TM. Stærstur hluti fjármögnunarinnar var hins vegar frá Arion banka og Íslandsbanka, sem voru umsjónaraðilar með yfirtökunni.


Tengdar fréttir

Skipta rekstrinum upp og flytja í ný dótturfélög

Stjórn Skeljungs hyggst skipta rekstrareiningum félagsins upp og flytja stærstan hluta þeirra í tvö ný dótturfélög. Breytingin er sögð liður í því að skerpa frekar á áherslum í rekstri Skeljungs. 

Skeljungur eykur umsvif sín í lyfsölu

Fjölorkufélagið Skeljungur verður meirihlutaeigandi í apótekakeðjunni Lyfsalanum og Lyfjavali með viðskiptum sem tilkynnt var um í dag. Kaupin eru sögð liður í að minnka vægi eldsneytissölu í rekstri Skeljungs.

Lífeyrissjóðir höfnuðu yfirtökutilboði í Skeljung

Líf­eyr­is­sjóð­irnir Frjálsi, Birta, Festa, Stapi og Lífs­verk og Gildi hafa hafnað yfir­tökutil­boði fjár­festa­hóps­ins Strengs ehf. á Skelj­ungi. Lífeyrissjóðirnir eru stærstu eigendur félagsins og fara alls með um 37% hlut.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×