Innherji

Kaupfélag Skagfirðinga og Árni Pétur kaupa Gleðipinna

Hörður Ægisson skrifar
Þórólfur Gíslason, kaupfélagsstjóri KS og Árni Pétur Jónsson, fyrrverandi forstjóri Skeljungs.
Þórólfur Gíslason, kaupfélagsstjóri KS og Árni Pétur Jónsson, fyrrverandi forstjóri Skeljungs.

Kaupfélag Skagfirðinga (KS) og Árni Pétur Jónsson, fyrrverandi forstjóri Skeljungs, hafa náð samkomulagi um kaup á Gleðipinnum en félagið, sem veltir yfir þremur milljörðum króna, rekur meðal annars veitingastaðina American Style og Hamborgarafabrikkuna.

Sigurjón R. Rafnsson, aðstoðarkaupfélagsstjóri KS, segir við Innherja að í kaupunum felist „spennandi tækifæri,“ en KS er fyrir eigandi að Metro og er unnið að endurbótum á þeim stöðum um þessar mundir.

Samkvæmt kaupsamkomulaginu mun Kaupfélagið og félag Árna Péturs, Hái Klettur ehf., einnig eignast veitingastaðina Aktu Taktu og BlackBox til viðbótar við American Style og Hamborgarafabrikkuna. Þá munu sömuleiðis afþreyingarstaðirnir Keiluhöllin og Rush trampólíngarðurinn fylgja með í kaupunum, en þær rekstrareiningar eiga að sameinast og fyrri eigendur munu áfram koma að eignarhaldi og rekstri á þeim.

Við höfðum horft til þess í nokkurn tíma að fá til liðs við okkur öflugan samstarfsaðila. Þannig hófst samtal okkar við Kaupfélagið.

Þáttur í samkomulaginu um viðskiptin, samkvæmt upplýsingum Innherja, er að kaupendurnir munu hins vegar ekki eignast veitingastaðina Saffran og Pítuna. Það sama á við um hlutdeild Gleðipinna í Olifa – Madre Pizza og Icelandic Food Company.

Kaupfélag Skagfirðinga, sem er risafyrirtæki á Íslandi, hagnaðist um meira en 5 milljarða króna í fyrra og er með eigið fé upp á liðlega 50 milljarða. Félagið er meðal annars eigandi útgerðarfyrirtækisins FISK Seafood auk þess að vera umsvifamikið í landbúnaði. Áður en Árni Pétur, sem hefur mikla reynslu af smásölurekstri, lét af störfum sem forstjóri Skeljungs fyrr á árinu var hann um árabil forstjóri Tíu Ellefu og Basko.

Jóhannes Ásbjörnsson, talsmaður og einn eigenda Gleðipinna, segir að viðræðurnar hafi staðið yfir um nokkurt skeið og hann sé ánægður með niðurstöðuna.

„Við höfðum horft til þess í nokkurn tíma að fá til liðs við okkur öflugan samstarfsaðila. Þannig hófst samtal okkar við Kaupfélagið. Rekstur Gleðipinna hefur gengið vel og við erum sannfærð um að svo verði áfram. Gleðipinnafjölskyldan er stór og samhent og gott að vita af henni í góðum höndum nýrra traustra eigenda. Við óskum kaupendum til hamingju með samninginn og hlökkum til áframhaldandi samstarfs við þá,“ segir hann.

Ekki fást upplýsingar um kaupverðið í viðskiptunum, sem eru gerð með fyrirvara um samþykki Samkeppniseftirlitsins, en Deloitte var ráðgjafi Gleðipinna við söluna.

Á síðasta rekstrarári Gleðipinna, sem markaðist mjög af farsóttinni, námu heildartekjur samstæðunnar tæplega 3,1 milljarði króna og félagið hagnaðist um 130 milljónir. Rekstrarhagnaður fyrir afskriftir og fjármagnsliði (EBITDA) var hins vegar 334 milljónir á árinu 2021 en samkvæmt upplýsingum Innherja er áætlað að EBITDA þessa árs verði í kringum 500 milljónir.

Auk Jóhannesar eru aðrir eigendur Gleðipinna þeir Guðmundur Auðunsson, Bjarni Stefán Gunnarsson ásamt feðgunum Jóhanni Þórarinssyni og Þórarni Ragnarssyni.

Aðstoðarkaupfélagsstjóri KS, sem keypti Gunnars Majónes í sumar og er meðal annars einnig eigandi að félögum á borð við Esja Gæðafæði og Vogabæ, segir að „Gleðipinnar hafi lagt áherslu á gæði matar og þjónustu og það munum við gera áfram. Ennfremur er einstaklega hæfur hópur stjórnenda og starfsfólks í Gleðipinnum sem við hlökkum til að starfa með.“

Veitingahúsakeðjan FoodCo og Gleðipinnar sameinuðust undir merkjum Gleðipinna á árinu 2020 þegar Samkeppniseftirlitið heimilaði samruna félaganna. Í skýrslu eftirlitsins þá kom fram að samanlögð hlutdeild veitingahúsakeðjanna næmi um 10-15 prósent af heildarveltu veitingahúsageirans á höfuðborgarsvæðinu, miðað við ákveðnar forsendur, á árinu 2018.

Frá samruna félaganna hafa Gleðipinnar, sem eru samtals með um 400 starfsmenn í vinnu, meðal annars selt frá sér Kaffivagninn úti á Granda og þá var síðasta veitingastað Eldsmiðjunnar lokað á síðasta ári.


Tengdar fréttir

Kaupfélag Skagfirðinga kaupir Gunnars majónes

Kaupfélag Skagfirðinga hefur fest kaup á Gunnars ehf., sem er hvað þekktast fyrir majónesframleiðslu. Fyrirtækið hefur undanfarin ár verið rekið af Kleópötru Kristbjörgu.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.