Viðskipti innlent

Skeljungur eykur umsvif sín í lyfsölu

Kjartan Kjartansson skrifar
Skeljungur verður með viðskiptunum meirihlutaeigandi Lyfsalans. Félagið rekur þrjú apótek, þar á meðal bílaapótek við Vesturlandsveg.
Skeljungur verður með viðskiptunum meirihlutaeigandi Lyfsalans. Félagið rekur þrjú apótek, þar á meðal bílaapótek við Vesturlandsveg.

Fjölorkufélagið Skeljungur verður meirihlutaeigandi í apótekakeðjunni Lyfsalanum og Lyfjavali með viðskiptum sem tilkynnt var um í dag. Kaupin eru sögð liður í að minnka vægi eldsneytissölu í rekstri Skeljungs.

Skeljungur á 10% hlut í Lyfsalanum ehf. sem rekur þrjú apótek á höfuðborgarsvæðinu. Kauptilboð Lyfsalans í allt hlutafél Lyfjavals ehf. og Landakots fasteignafélags ehf. var samþykkt í dag. Lyfjaval rekur einnig þrjú apótek.

Í tilkynningu um viðskiptin segir að gangi þau eftir verði kaupin fjármögnuð með hlutafjáraukningu Skeljungs í Lyfsalanum sem nemur 400 milljónum króna. Við aukningu verður Skeljungur eigandi að 56% hlutafjár í Lyfsalanum.

Kauptilboðið hljóða upp á einn og hálfan milljarð króna og verður kaupverðið greitt með eiginfjárframlagi og lántöku. Stefnt er að því að ljúka kaupunum á fjórða ársfjórðungi en þau eru háð niðurstöðu áreiðanleikakönnunar og samþykki Samkeppniseftirlitsins.

Skeljungur hefur verið þekktastur fyrir að reka bensínstöðvar um áratugaskeið. Í tilkynningunni er haft eftir Árna Pétri Jónssyni forstjóra að kaupin séu liður í stefnu Skeljungs um að minnka vægi í sölu eldsneytis með því að fjárfesta í einingum sem tengist henni ekki.

Hann segist jafnframt líta til tækifæra í að auka framboð bílaapóteka. Lyfsalinn rekur fyrir eitt slíkt apótek við þjónustustöð Orkunnar sem er í eigu Skeljungs við Vesturlandsveg.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×