Innherji

Brim stofnar Stiku umhverfislausnir ásamt meðfjárfestum

Þorsteinn Friðrik Halldórsson skrifar
Nýja félagið, Stika umhverfislausnir, mun hefja starfsemi í haust. 
Nýja félagið, Stika umhverfislausnir, mun hefja starfsemi í haust.  VÍSIR/VILHELM

Sjávarútvegsfélagið Brim hefur stofnað nýtt félag ásamt Bjarna Ármannssyni, forstjóra Iceland Seafood International, og Magnúsi Júlíussyni, stjórnarmanni í Festi, sem mun vinna að þróun hugbúnaðarlausna fyrir umhverfisútreikninga fyrirtækja.

Magnús segir í samtali við Innherja að Stika umhverfislausnir ehf., sem mun hefja starfsemi á haustmánuðum, sé stofnað á grunni þróunarstarfs sem hefur verið unnið hjá Brimi.

„Á síðustu árum hefur Brim unnið að gerð hugbúnaðarlausna sem halda utan um umhverfisútreikninga fyrirtækisins. Með nýstofnuðu félagið, Stika umhverfislausnir, er ætlunin að þróa lausnina áfram með aðkomu nýrra aðila,“ segir Magnús.

„Með aukinni áherslu á umhverfismál í rekstri fyrirtækja teljum við að það sé þörf á hugbúnaðarlausn af þessu tagi.“

Brim hefur á síðustu misserum fjármagnað sjálfbærniverkefni með útgáfu blárra og grænna skuldabréfa. Útgáfan hefur meðal annars verið notuð til að fjármagna uppbyggingu á umhverfisgagnagrunni „með það að markmiði að hafa yfirsýn yfir losun og hvar hún verður til í starfseminni,“ að því er kom fram í tilkynningu frá útgerðinni í október 2021.

Magnús Júlíusson kom nýr inn í stjórn Festi á hluthafafundi smásölufélagsins um miðjan júlí. Hann hafði starfað sem aðstoðarmaður háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra síðan í byrjun árs 2022 og þar áður sem forstöðumaður orkusviðs N1 sem er undir hatti Festar. Árið 2017 stofnaði Magnús Íslenska orkumiðlun ehf., sem sérhæfði sig í raforkusölu á almennum raforkumarkaði en fyrirtækið var keypt af Festi í mars 2020.

Bjarni Ármannsson hefur fjárfest töluvert í sjávarútvegi og öðrum haftengdum atvinnufyrirtækjum í gegnum félagið Sjávarsýn. Ásamt því að vera stærsti einstaki hluthafinn í Iceland Seafood International er Sjávarsýn stærsti hluthafinn í Fáfni Offshore sem rekur þjónustuskipið Polarsyssel. Þá er Bjarni jafnframt á meðal stærstu eigenda hollenska skipafélagsins Cargow B.V. og Samey Robotics, sem sérhæfir sig í sjálfvirknilausnum fyrir sjávarútveg.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×