Körfubolti

Dallas heiðrar Dirk í kvöld

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Dirk Nowitzki og Dallas Mavericks urðu NBA-meistarar í eina skiptið árið 2011.
Dirk Nowitzki og Dallas Mavericks urðu NBA-meistarar í eina skiptið árið 2011. Getty/John W. McDonough

Þetta er sérstakt kvöld í sögu NBA-liðsins Dallas Mavericks og fyrir besta leikmanninn í sögu félagsins. Treyja Þjóðverjans Dirk Nowitzki fer þá upp í rjáfur.

Dirk Nowitzki átti magnaðan feril með Dallas í NBA og er eini leikmaðurinn í sögu deildarinnar til að spila 21 tímabil með sama félaginu.

Dallas mætir Golden State Warriors í American Airlines Center í Dallas í kvöld og þar verður treyja númer 41 dregin upp með viðhöfn. Dirk er aðeins fjórði leikmaður Dallas sem fær slíkan virðingavott en treyjur Brad Davis (10), Rolando Blackman (22) og Derek Harper (12) eru líka uppi í rjáfri Dallas hallarinnar.

„Dirk er allt fyrir Mavs. Þetta er sérstakur dagur fyrir Mavs og alla stuðningsmenn félagsins út um allan heim,“ sagði eigandinn Mark Cuban.

Nowitzki kom til Dallas nítján ára gamall eftir að hafa verið valinn níundi í nýliðavalinu 1998. Milwaukee Bucks valdi hann reyndar en skipti honum strax til Dallas Mavericks í stórum leikmannaskiptum.

Nowitzki skoraði bara 8,2 stig í leik á fyrsta tímabili en meira en tvöfaldaði stigaskor sitt tímabilið á eftir (17,5) og var tímabilið 2002-03 kominn með 25,1 stig í leik.

Tímabilið 2006 til 2007 var Nowitzki kosinn mikilvægasti leikmaður NBA-deildarinnar eftir að hafa verið með 24,6 stig, 8,9 fráköst og 3,4 stoðsendingar að meðaltali í leik.

Hápunkturinn var árið 2011 þegar Dallas varð NBA-meistari og Nowitzki var kosinn sá mikilvægasti í lokaúrslitunum.

Nowitzki spilaði með Dallas út 2018-19 tímabilið en lagði skóna á hilluna eftir það enda varð hann 41 árs gamall það sumar. Í síðasta leiknum var hann með 20 stig og 10 fráköst.

Dirk lék alls 1522 deildarleiki fyrir Dallas og 145 leiki að auki í úrslitakeppni. Í deildarleikjunum var hann með 20,7 stig og 7,5 fráköst að meðaltali í leik.

NBAFleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.