Handbolti

Alfreð missir undirbúningsleiki vegna hópsmits

Sindri Sverrisson skrifar
Lærisveinar Alfreðs Gíslasonar hefja leik á EM sama dag og íslenska landsliðið, eða 14. janúar.
Lærisveinar Alfreðs Gíslasonar hefja leik á EM sama dag og íslenska landsliðið, eða 14. janúar. EPA-EFE/Anne-Christine Poujoulat

Hætt hefur verið við tvo vináttulandsleiki sem Þýskaland og Serbía ætluðu að spila í Þýskalandi, til undirbúnings fyrir Evrópumót karla í handbolta sem hefst 13. janúar.

Ástæðan er hópsmit í herbúðum Serba sem þar með bætast í hóp landsliða sem orðið hafa fyrir barðinu á útbreiðslu kórónuveirunnar í aðdraganda EM.

Markvörðurinn Vladimir Cupara og hornamaðurinn Bogdan Radivojevic eru smitaðir en einnig þjálfarinn Toni Gerona, markmannsþjálfarinn Dimitrija Pejanovic, og tveir til viðbótar úr starfsliði Serba. Allir eru þó við ágæta heilsu og með væg einkenni samkvæmt tilkynningu serbneska handknattleikssambandsins.

Leikirnir við Serba voru sjálfsagt hugsaðir sem mikilvægur liður í undirbúningi Alfreðs Gíslasonar og hans lærisveina í þýska liðinu, fyrir EM. Þar mæta Þjóðverjar liði Hvít-Rússa í fyrsta leik, 14. janúar, en í riðlinum eru einnig Austurríki og Pólland.

Handball-World bendir reyndar á þann möguleika að nú geti Þýskaland og Frakkland mæst, þar sem að einnig hafi verið hætt við vináttulandsleiki á milli Frakklands og Egyptalands vegna hættu á smitum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×