Skoðun

Óbólu­setti fíllinn í her­berginu

Ólafur Hauksson skrifar

Óbólusett fólk er aðalástæðan fyrir núverandi álagi á heilbrigðiskerfið, sem síðan leiðir til harkalegra smitvarna og tilheyrandi tekjutaps í mörgum atvinnugreinum. Að ekki sé talað um stórfellt rask í lífi tugþúsunda einstaklinga.

Samt ríkir undarleg undanlátssemi í þjóðfélaginu gagnvart þessu ábyrgðarlausa fólki sem hafnar bólusetningu. Biðlað er til þess að láta bólusetja sig, en lítið meira. Hinir andsetnu andstæðingar bólusetninga eru hins vegar svo forhertir af hjarðheimskunni að þeir spyrna fótum bara fastar niður og kveikja í kyndlunum. Áhrifaríkara virðist að biðja fisk um að drekkja sér.

Áhrifafólk telur ekki rétt að þvinga fólk til að láta bólusetja sig eða setja því skorður fyrir þátttöku í daglegu lífi. Í kurteisisskyni er óbólusettum því leyft að setja þjóðfélagið á hliðina.

Víða annars staðar en á Íslandi er þolinmæðin þrotin gagnvart skemmdarverkum óbólusettra og kyndilbera þeirra. Búið er að taka af þeim réttinn til að sliga heilbrigðiskerfið. Í Austurrríki hefur verið ákveðið að setja á bólusetningarskyldu. Mjög víða þarf fólk að sýna vottorð um bólusetningu til að fá flestalla þjónustu, ferðast eða halda vinnunni. Slíkar aðgerðir eru hins vegar þunglamalegar og seinlegar. Hér á landi eru engar kvaðir um bólusetningu við Covid-19.

Fortölur og vísindalegar staðreyndir virðast engin áhrif hafa á þá sem eru alvarlega smitaðir af mótþróaþrjóskuröskun gagnvart bólusetningu. Ábyrgðarleysið gagnvart öðrum þjóðfélagsþegnum er algjört. Þetta fólk mun halda áfram að valda tjóni þangað til bólusetningarskylda verður ákveðin og henni fylgt eftir af ekki minni festu en þegar ríkið innheimtir hjá okkur skattana í hverjum einasta mánuði.

Höfundur starfar við almannatengsl.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Skoðun

Stanley

Þorsteinn Másson skrifar

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.