Körfubolti

Morðingi föður Jordans fær ekki reynslulausn

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Michael Jordan missti föður sinn sumarið 1993. Skömmu eftir það tilkynnti hann að hann væri hættur í körfubolta.
Michael Jordan missti föður sinn sumarið 1993. Skömmu eftir það tilkynnti hann að hann væri hættur í körfubolta. getty/Aurelien Meunier

Larry M. Demery, annar þeirra sem var dæmdur fyrir að myrða James Jordan, föður Michaels Jordan, fær ekki reynslulausn 2024 eins og fyrirætlað var.

Dómstóll í Norður-Karólínu greindi frá þessu. Engin ástæða var gefin fyrir því að Demery fær ekki reynslulausn eftir tvö ár. Málið verður tekið fyrir að nýju í desember 2023.

Demery og Daniel A. Green myrtu James Jordan þegar hann var sofandi í Lexus-bíl sínum í vegkanti í Norður-Karólínu 23. júlí 1993. Lík hans fannst tólf dögum síðar. 

Tveimur árum eftir morðið fékk Demery lífstíðardóm auk fjörutíu ára dóms. Honum var breytt 2008, Demery fékk „aðeins“ lífstíðardóm og átti því kost á reynslulausn. Hann þarf þó að bíða eitthvað lengur eftir að fá hana.

Demery situr inni í fangelsi í Lincoln sýslu, norðvestur af Charlotte, höfuðborg Norður-Karólínu. Samkvæmt fréttum bandarískra fjölmiðla hefur hann hegðað sér heldur illa og síðan 2001 hefur hann nítján sinnum gerst brotlegur við reglur fangelsisins. Síðast í þessum mánuði var hann gripinn með eiturlyf.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×