Umfjöllun og viðtöl: ÍBV - Stjarnan 20-31 | Stjarnan keyrði yfir ÍBV í seinni hálfleik

Einar Kárason skrifar
Brynjar Darri fær örugglega svipaða meðferð og þarna eftir frammistöðu sína í kvöld.
Brynjar Darri fær örugglega svipaða meðferð og þarna eftir frammistöðu sína í kvöld. vísir/vilhelm

Stjarnan lyfti sér upp að hlið toppliðanna í Olís-deild karla með öruggum ellefu marka sigri gegn ÍBV, 20-31. Fyrir leik kvöldsins voru Eyjamenn í þriðja sæti deildarinnar en gestirnir í því fjórða. 

Lítið var skorað í upphafi leiks en markverðir beggja liða settu tóninn með því að verja sitthvort skotið ásamt því að bæði lið spiluðu agaðan og góðan varnarleik. Heimamenn höfðu yfirhöndina í byrjun en gestirnir aldrei langt undan. Mest náði ÍBV tveggja marka forustu en undir lok fyrri hálfleiks náðu Stjörnumenn að jafna leikinn, 11-11, ásamt því að skora loka mark hálfleiksins. Með því náði Stjarnan að komast yfir í fyrsta skipti í leiknum. Staðan 11-12 eftir jafnan og fjörugan fyrri hálfleik.

Það var hinsvegar allt annað uppi á teningnum í síðari hálfleik. Eyjamenn áttu í stökustu vandræðum sóknarlega ásamt því að vörnin var ekki jafn öflug og hún var í fyrri hálfleik. Eftir tíu mínútna leik í síðari hálfleik var staðan orðin 14-18. Garðbæingar skoruðu næstu þrjú mörk og komnir í vænlega stöðu fyrir síðasta stundarfjórðunginn. 

Heimamenn reyndu eins og þeir gátu að saxa á forskot gestaliðsins en mest náðu þeir að minnka muninn í fjögur mörk þegar rúmar fimm mínútur eftir lifðu leiks. Lengra komust þeir ekki því Stjarnan setti í fluggír síðustu mínútur leiksins og skoruðu átta mörk gegn stöku marki ÍBV.

Stjörnumenn fara því sáttir og sælir inn í hátíð ljóss og friðar.

Af hverju vann Stjarnan?

Markvarsla og vörn gestanna var til fyrirmyndar í kvöld og áttu Eyjamenn í vandræðum allan leikinn. 

Hverjir stóðu upp úr?

Brynjar Darri Baldursson var frábær í marki Stjörnunnar. Hann varði samtals tuttugu og eitt skot, þar af tvö vítaköst. Leó Snær Pétursson og Björgvin Hólmgeirsson voru markahæstir með níu og sjö mörk.

Í liði ÍBV var Dagur Arnarsson markahæstur með fimm mörk. Björn Viðar Björnsson varði tólf bolta í markinu.

Hvað gekk illa?

Síðari hálfleikur Eyjamanna var agalegur. Tilviljanakenndur sóknarleikur og vörnin ekki jafn öflug og í fyrri hálfleiknum. Mikið af töpuðum boltum hjálpaði ekki til.

Hvað gerist næst?

Lítið gerist næsta einn og hálfa mánuðinn eða svo en vonandi eiga allir viðkomandi gleðileg jól.

Patrekur: Vorum sterkari í dag og áttum sigurinn skilið

Patrekur fer ánægður inn í fríið.Mynd/Arnþór

,,Þetta er eitthvað sem er mjög ánægjulegt. Ellefu marka sigur á ÍBV hér í Eyjum," sagði Patrekur Jóhannesson, þjálfari Stjörnunnar, eftir leik.

,,Mér fannst við góðir varnarlega í fyrri hálfleik. Brynjar (Darri Baldursson) var frábær í markinu. Sóknarlega vorum við ekki nægilega sterkir. Vorum að spila þvert, taka erfiðar sendingar og klikkum á góðum færum. Við eigum eitt mark í hálfleik og byrjum seinni hálfleikinn mjög vel. Alveg sama hvernig vörn ÍBV spilaði vorum við agaðir og áræðnir sóknarlega í seinni hálfleik."

,,Þeir minnka muninn í fjögur mörk en við höfðum stjórn á leiknum. Grunnurinn var markvarslan og vörnin í dag."

Eftir jafnan fyrri hálfleik var ekki að sjá að leikurinn myndi enda með ellefu marka mun

,,Við höfum lent í svona leikjum. Þetta er stundum svona í handboltanum. Á móti Aftureldingu vorum við tíu mörkum undir og náum jafntefli. Eyjamenn þurftu að gera eitthvað á lokakaflanum. Þeir fjölguðu í sókn en við náum að leysa það. Í restina sjá menn kannski að þetta er orðið erfitt. Þetta var jafnt framan af en við vorum sterkari í dag og áttum sigurinn skilið."

Grímur: Vorum slakir á öllum sviðum í seinni hálfleik

Grímur Hergeirsson, þjálfari ÍBV.vísir/daníel þór

Grímur Hergeirsson, þjálfari ÍBV, var að vonum ekki ánægður með úrslit leiksins. ,,Tilfinningin er náttúrulega ekki góð. Það er ljóst. Ég óska Stjörnunni til hamingju með sigurinn. Þeir eru með hörkulið en við gerum þeim þetta frekar auðvelt fyrir í seinni hálfleik. Við hættum að sækja á markið og bökkum. Við þurfum að skoða og greina það. Við höfum verk að vinna í þessari pásu sem við erum að fara inn í."

,,Við náum að minnka muninn í fjögur mörk og eigum möguleika á að minnka muninn í þrjú mörk þegar tæpar tíu mínútur eru eftir, ef ég man rétt. Í handbolta er það hægt en þetta var of lítið hjá okkur í þessu tilfelli."

,,Í mínum huga, rétt eftir leik, vorum við slakir á öllum sviðum leiksins í seinni hálfleik," sagði Grímur spurður út í eitthvað eitt sem helst hefði mátt fara betur í kvöld. ,,Við þurfum að vinna í okkar málum í fríinu. Menn uppskera eins og þeir sá. Það er ekki verið að fara inn í eitthvað frí með glans eins og við kláruðum þennan leik."

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira