Handbolti

Eyjamaðurinn verður lengur hjá Guðjóni Val

Sindri Sverrisson skrifar
Elliði Snær Viðarsson og Austurríkismaðurinn Alexander Hermann sem mun yfirgefa Gummersbach eftir leiktíðina.
Elliði Snær Viðarsson og Austurríkismaðurinn Alexander Hermann sem mun yfirgefa Gummersbach eftir leiktíðina. vfl-gummersbach.de

Línu- og landsliðsmaðurinn Elliði Snær Viðarsson hefur framlengt samning sinn við þýska handknattleiksfélagið Gummersbach.

Elliði var með samning við félagið sem renna átti út næsta sumar en hefur nú samþykkt að spila áfram með liðinu, og undir stjórn Guðjóns Vals Sigurðssonar, að minnsta kosti fram á sumarið 2023.

„Við erum svo glöð að þú munir halda áfram hjá okkur og að við munum fá að upplifa margar fleiri frábærar stundir með þér Edi!“ segir í tilkynningu frá Gummersbach.

Eins og staðan er núna er því útlit fyrir að Elliði spili með Gummersbach í efstu deild á næstu leiktíð en liðið er efst í B-deildinni með 26 stig eftir 16 leiki, þremur stigum á undan Eintracht Hagen og fjórum á undan Nordhorn, en tvö efstu liðin komast upp.

Elliði, sem er 23 ára Eyjamaður, kom til Gummersbach frá ÍBV í ágúst í fyrra og var einn af fyrstu mönnunum sem Guðjón Valur fékk til félagsins. Hann var í leikmannahópi ÍBV sem varð þrefaldur meistari árið 2018 og kvaddi félagið sem bikarmeistari.

Elliði fór á sitt fyrsta stórmót á HM í Egyptalandi í byrjun þessa árs og er í 35 manna hópnum sem Guðmundur Guðmundsson landsliðsþjálfari mun velja úr fyrir EM í Ungverjalandi og Slóvakíu í janúar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×