Skoðun

228 hraða­lækkandi til­lögur frá í­búum á kjör­tíma­bilinu

Sara Björg Sigurðarsdóttir skrifar

Í síðustu viku komst til framkvæmda fyrsti áfangi nýrrar hámarkshraðaáætlunar sem samþykkt var síðastliðið vor. Hafa vaskir starfsmenn borgarinnar verið að endurmerkja götur og skipta út skiltum vegna lækkunar hraða víðsvegar um borgina en nýjar merkingar taka gildi jafnóðum og þær eru settar upp. Markmiðið er að stuðla að bættu umferðaröryggi gangandi og hjólandi vegfarenda innan hverfisins en rannsóknir sýna að fylgni er á milli hraða og slysatíðni. Forgangsatriði fyrir meira öryggi vegfarenda er að draga úr hraða til að auka öryggi gangandi og hjólandi. Lögð hefur verið áhersla á götur við leiðir barna til og frá skóla eða frístunda samhliða við götur þar sem er mikill fjöldi gangandi vegfarenda á leið um.

Öruggari borg fyrir börn, gangandi og hjólandi

Íbúar borgarinnar hafa verið ötullir á kjörtímabilinu að kalla eftir lækkun hámarkshraði í þeirra nærumhverfi enda stuðlar hraðalækkun að bættu öryggi, betri hljóðvist og stuðlar að betri lífsgæðum fyrir íbúa. Í dag geta því börn, foreldrar, gangandi og hjólandi vegfarendur víðsvegar um borgina glaðst yfir þessum ánægjulega áfanga. Sem dæmi hafa komið inn í hugmyndasöfnun í gegnum Hverfið Mitt á þessu kjörtímabili 228 tillögur sem snúa að lækkun hámarkshraða eða beiðnir um hraðalækkandi aðgerðir eins og hraðahindranir, þrengingum í götum eða hraðavaraskilti. Sem dæmi komu úr Laugardal 39 tillögur, 38 komu úr Háaleiti og Bústöðum og úr hverfinu mínu, Breiðholtinu komu inn 36 tillögur.

Er breyting á hraða í þinni götu?

Í þessum áfanga verða teknar niður í 40 km hámarkshraða Snorrabraut, milli Burknagötu og Grettisgötu. Fjallkonuvegur, milli Gullinbrúar og Frostafoldar og Fjallkonuvegur, milli Jöklafoldar og Hallsvegar. Þær götur sem hraði tekin niður í 30 km hámarkshraða eru Snorrabraut, milli Grettisgötu og Sæbrautar. Borgartún, milli Snorrabrautar og Katrínartúns. Nóatún, milli Laugavegs og Borgartúns. Engjateigur. Langholtsvegur, milli Skeiðarvogs og Sæbrautar. Álfheimar. Holtavegur, milli Langholtsvegs og Sæbrautar. Stjörnugróf. Seljaskógar, milli Grófarsels og Hjallasels. Bæjarbraut. Rofabær, milli Hraunbæjar og þrengingar austan Brúaráss. Bjallavað. Ferjuvað. Völundarhús, milli Suðurhúsa og Gagnvegs til vesturs. Langirimi, milli Hallsvegar og Flétturima. Mosavegur/Spöngin, milli Móavegar og Skólavegar. Vegur norðan við Rauðavatn ásamt vegtengingu við Hádegismóa, merkt II gata og Aðalbraut.

Til hamingju Reykjavíkingar með þetta mikilvæga skref - skref sem við erum að taka til að skapa öruggari borg fyrir börn, gangandi og hjólandi.

Höfundur er varaborgafulltrúi Samfylkingar í samgöngu- og skipulagsráði og formaður íbúaráðsins í Breiðholti.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.