Handbolti

Upphitun Seinni bylgjunnar: „Þetta þarf að vera létt og skemmtilegt“

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Valsmaðurinn Agnar Smári Jónsson í leik liðsins á dögunum.
Valsmaðurinn Agnar Smári Jónsson í leik liðsins á dögunum. Vísir/Hulda Margrét

Stefán Árni Pálsson og Ásgeir Örn Hallgrímsson hituðu upp fyrir tólftu umferð Olís deildar karla í handbolta í aukaþætti af Seinni bylgjunni sem er nú kominn inn á Vísi.

Tólfta umferðin hefst í kvöld með leik Fram og Hauka í Safamýri en hinir fimm leikirnir fara síðan allir fram annað kvöld.

Haukarnir geta náð toppsætinu aftur tímabundið af FH með sigri í kvöld en FH-ingar hrifsuðu það til sín með sigri í Hafnarfjarðarslagnum á dögunum.

„Nú erum við farnir að sjá hvernig þetta er að fara að spilast og hvaða lið eru að fara að berjast á toppnum. Um leið hverjir hafa verið smá vonbrigði og hverjir þurfa að rífa sig í gang í pásunni í janúar,“ sagði Ásgeir Örn Hallgrímsson.

Stefán Árni velti því fyrir sér hvernig að væri fyrir leikmenn að spila síðustu leikina fyrir sex vikna pásu.

„Ég held að það sé mikil eftirvænting fyrir að klára þetta og þetta er smá krefjandi að stilla þessu upp. Bæði andlega fyrir leikmenn en líka fyrir þjálfarana. Það er ekki hægt að keyra neitt alltof mikið á leikmennina því þetta þarf að vera létt og skemmtilegt til að halda mönnum ferskum svo að menn séu léttleikandi í leikjunum sjálfum,“ sagði Ásgeir.

„Nú sjáum við lið sem voru í Evrópukeppninni eins og Val sem voru byrjaðir mjög snemma. Þeir eru farnir að sýna smá þreytumerki. Það er búið að vera mjög erfitt haust hjá þeim. Við sjáum líka Haukana, eftir þá törn sem þeir voru í, að þeir eru orðnir smá laskaðir. Þetta verður kærkomið frí fyrir þá þegar þessar umferðir klárast,“ sagði Ásgeir.

„Þetta er smá dans og menn þurfa aðallega að halda sér á tánum andlega,“ sagði Ásgeir.

Stefán Árni og Ásgeir Örn fóru síðan yfir leikina í tólftu umferðinni. Það má finna allan upphitunarþáttinn hér fyrir neðan.

Klippa: Seinni bylgjan: Upphitun fyrir tólftu umferð Olís deildar karla



Fleiri fréttir

Sjá meira


×