Handbolti

Teitur hafði betur í Íslendingaslag | Íslenskir sigrar í dönsku deildinni

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Teitur Örn Einarsson skoraði fjögur mörk í Íslendingaslag þýsku deildarinnar í kvöld.
Teitur Örn Einarsson skoraði fjögur mörk í Íslendingaslag þýsku deildarinnar í kvöld. Axel Heimken/picture alliance via Getty Images

Það voru Íslendingar í eldlínunni úti um alla Evrópu handboltanum í kvöld. Teitur Örn Einarsson og félagar hans í Flensburg unnu fimm marka sigur gegn Arnóri Þór Gunnarssyni og félögum hans í Bergischer í þýsku deildinni, og Íslendingaliðin GOG og Álaborg unnu sigra í dönsku deildinni svo eitthvað sé nefnt.

Teitur Örn skoraði fjögur mörk fyrir Flensburg er liðið vann 29-24 útisigur gegn Bergischer, en Arnór Þór setti þrjú fyrir heimamenn.

Í dönsku deildinni vann Álaborg fjögurra marka sigur gegn Mors Thy á útivelli, 32-36. Aron Pálmarsson var ekki með Álaborgarliðinu, en Arnór Atlason, aðstoðarþjálfari liðsins, var á hliðarlínunni.

Þá unnu Viktor Gísli Hallgrímsson og félagar hans í GOG með minnsta mun gegn Skjern, 30-29. GOG hefur enn ekki tapað leik og trónir á toppi deildarinnar með 25 stig eftir 13 leiki, fjörum stigum fyrir ofan Álaborg sem situr í öðru sæti.

Í Póllandi heldur Vive Kielce sigurgöngu sinni áfram, en liðið vann sex marka sigur gegn Piotrkowianin Piotrkow, 32-38. Haukur Þrastarson skoraði fjögur mörk fyrir Kielce og Sigvaldi Björn Guðjónsson eitt, en liðið er með fullt hús stiga á toppi deildarinnar eftir 12 leiki.

Að lokum tapaði Íslendingalið Aue naumlega í þýsku B-deildinni gegn Hagen, 31-32. Arnar Birkir Hálfdánsson og Sveinbjörn Pétursson leika með liðinu, en Aue er í harðri fallbaráttu með átta stig eftir 15 leiki.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×