Körfubolti

Suns snöggkældi niður sjóðheitan Steph Curry og vann sautjánda í röð

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Stephen Curry fylgist svekktur með á bekknum í nótt en það gekk lítið upp hjá honum í toppslagnum.
Stephen Curry fylgist svekktur með á bekknum í nótt en það gekk lítið upp hjá honum í toppslagnum. AP/Matt York

Phoenix Suns hélt sigurgöngu sinni áfram í NBA-deildinni og nú með frábærum sigri á Golden State Warriors í topslag deildarinnar.

Með þessum sigri þá tóku Suns-menn toppsæti Vesturdeildarinnar af Warriors á innbyrðis leikjum en bæði lið hafa nú unnið 18 af 21 leik sínum í vetur.

Golden State var búið að vinna sjö leiki í röð fyrir leikinn og hafði enn fremur skorað yfir hundrað stig í öllum leikjum sínum á tímabilinu. Það breyttist í nótt.

Phoenix Suns komst í úrslitin um titilinn í sumar en tapaði síðan þremur af fyrstu fjórum leikjum sínum. Liðið fór þá í gang og hefur nú unnið sautján leiki í röð sem er jöfnun á  félagsmeti.

Golden State skoraði mikið framan af leik en Suns hertu vörnina þegar á leið leikinn og allan seinni hálfleikinn gekk Steph Curry og félögum afar illa að skora. Warriors skoraði þannig 35 stig í fyrsta leikhlutanum en bara 42 stig allan seinni hálfleikinn þar af bara 18 stig í fjórða leikhlutanum.

Curry sjálfur endaði bara með 12 stig í leiknum en hann klikkaði á 17 af 21 skoti sínu. Jordan Poole var stigahæstur í liðinu með 28 stig og Otto Porter Jr. kom með 16 stig inn af bekknum.

Það sem gerir sigur Phoenix Suns enn athyglisverðari er að liðið missti Devin Booker meiddan af velli og hann spilaði aðeins fimmtán mínútur í leiknum.

Hinar stórstjörnur liðsins, Deandre Ayton og Chris Paul, voru frábærir. Ayton var með 24 stig og 11 fráköst en Paul með 15 stig, 11 stoðsendingar og 5 stolna bolta.

LeBron James lék ekki með Los Angeles Lakers þegar liðið vann 117-92 útisigur á Sacramento Kings. James er kominn á heilsulistann vegna mögulegrar kórónuveirusýkingar og gæti misst af nokkrum leikjum.

Anthony Davis var með 25 stig og Russell Westbrook bætti við 23 stigum, 5 fráköstum og 6 stoðsendingum. kom síðan með 22 stig inn af bekknum hjá Lakers mönnum.

James Harden var með 34 stig, 10 fráköst og 8 stoðsendingar þegar Brooklyn Nets vann 112-110 sigur á New York Knicks í nágrannaslag en Kevin Durant bætti við 27 stigum og 9 stoðsendingum. James Johnson tryggði sigurinn með tveimur vítaskotum 2,2 sekúndum fyrir leikslok.

  • Úrslitin í NBA-deildinni í nótt:
  • Phoenix Suns - Golden State Warriors 104-96
  • Sacramento Kings - Los Angeles Lakers 92-117
  • Brooklyn Nets - New York Knicks 112-110
  • Toronto Raptors - Memphis Grizzlies 91-98
  • Portland Trail Blazers - Detroit Pistons 110-92
NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×