Handbolti

„Ekkert atvinnumannalið í handbolta á Íslandi“

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Þorgeir Haraldsson ræddi margt í þættinum þar á meðal um atvinnumennsku í handbolta á Íslandi.
Þorgeir Haraldsson ræddi margt í þættinum þar á meðal um atvinnumennsku í handbolta á Íslandi. Skjámynd/S2 Sport

Þorgeir Haraldsson, formaður Handknattleiksdeildar Hauka, segir það bara vera gróusögur að það séu atvinnumannlið í íslenska handboltanum í dag. Ekkert íslenskt félag hafi efni á slíku.

Þorgeir var nýjasti gestur Henrys Birgis Gunnarssonar í Foringjunum á Stöð 2 Sport en í þáttunum er rætt við menn sem hafa gefið mikið af sér og verið lengi í áhrifastöðum hjá íslenskum íþróttafélögunum.

„Menn tala hér ofsalega fjálglega um atvinnumenn og atvinnumennsku og allt það. Að við séum eins og þessir og hinir. Við erum bara ekkert svoleiðis,“ sagði Þorgeir Haraldsson.

„Það er ekkert atvinnumannalið í handbolta á Íslandi. Allir þessir strákar í karlaboltanum eru allir í fullri vinnu eða fullum skóla. Þeir eru síðan að fá einhverjar verktakagreiðslur fyrir sitt framlag í hinu. Klúbbarnir hafa ekkert efni á þessu,“ sagði Þorgeir.

„Við erum með plan svona til að prófa en ég veit ekki hvort það verður á næsta ári eða ekki. Að taka einn dag í viku til að tryggja hvíld, næringu og bla bla. Það er á teikniborðinu hjá Ásgeiri Erni (Hallgrímssyni) og Aroni (Kristjánssyni) hvernig við gerum það,“ sagði Þorgeir.

„Valsararnir eru náttúrulega eitthvað komnir í áttina að þessu í fótboltanum og kannski í handboltanum líka. Klúbbarnir hafa ekki pening í þetta, það er alveg klárt,“ sagði Þorgeir.

Það má sjá þetta brot úr þættinum hér fyrir neðan.

Klippa: Foringjarnir: Atvinnumennska í íslenskum handbolta



Fleiri fréttir

Sjá meira


×