Skoðun

Hægri græn orka?

Tómas Guðbjartsson skrifar

Það hljóta allir að sjá að það er algjörlega út úr kú að sami ráðherra fari með umhverfis-/loftslagsmál og orkumál. Hagsmunir orkugeirans á Íslandi eru gríðarlegir og náttúran alltaf sett i annað sæti. Einfaldlega vegna þess að í orku- og stóriðjugeiranum liggja peningarnir - og lobbýismi staðalbúnaður. 

Umhverfisráðherra hefur hingað til þurft að gæta hagsmuna náttúrunnar gagnvart öðrum ráðherrum og ráðuneytum, eins og við iðnaðarráðherra og landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra. Nýskipaður ráðherra er hins vegar þegar farinn að berja i bumbur með slagorðum eins og „orkuskipti“, „græn orka“ og „virkja meira - en varlega“ - slagorð sem eru meira umbúðir en innihald. 

Ég minni á að aðeins 3% af þeirri orku sem við framleiðum í dag þarf til að rafvæða allan bílaflota Íslendinga. Yfir 80% af orku okkar fer hins vegar í að knýja stóriðju, aðallega álver, sem eru afar mengandi og hráefnið baxít flutt yfir hnöttinn til að bræða það hérlendis. Afurðin er síðan flutt aftur yfir hafið og notuð i hagkerfum sem sum nýta sér ekki einu sinni að endurnýta málminn. 

Ekki eru kísilverin skárri, jafnvel þau sem teljast „Vinstri Græn“ eins og á Bakka, en erlendir álrisar gefa nú í skyn að þeir vilji frekari fjárfestingar hér á landi. Enda ál- og kísilverð í hæstu hæðum - en nota bene tímabundið. Eru menn búnir að gleyma hótunum Rio Tinto í Straumsvík fyrir tveimur árum, þegar átti að leggja verksmiðjuna af? Hættan nú er sú að náttúruperlur verið færðar á færibandi undir fallöxi hagsmunaaðila. 

Nýskipaður ráðherra málaflokksins mun þá sitja báðum megin borðsins og því í kjöraðstöðu að „láta hlutina gerast“. Allt í nafni „grænnar orku“ - sem eftir allt er ekki svo græn - hvort sem hún kemur frá vinstri eða hægri - enda verið að rústa einstakri náttúru okkar, sem ólíkt græðgi, er takmörkuð auðlind. Að svona ráðuneyti skuli vera sett á koppinn á vakt VG er síðan ekkert annað en hneyksli.

Höfundur er náttúruverndarsinni.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Sjá meira


×