Skoðun

Það er dýrt að vera fátækur

Sanna Magdalena Mörtudóttir skrifar

Þú þarft að kaupa notuð heimilistæki eins og þvottavél því þú getur ekki lagt út fyrir nýrri vél sem virkar.

Þú veist aldrei hvernig ástandið er á notuðu vélinni en vonar að hún gefi ekki upp öndina.

Í fátækt er ekki hægt að fyrirbyggja vandamál með því að fara reglulega til tannlæknis.

Lyf eða matur, hvort verður fyrir valinu?

Sálfræðitímar eru fjarlægur lúxus, þannig þú heldur öllu inni sem þyrfti að komast út.

Það er hægt að komast upp með það að greiða suma reikninga mánuði eftir á en því fylgir gjald.

Ef reikningur er enn ógreiddur eftir 30 daga, þá verður vandamálið stærra.

Löginnheimtubréf kemur til þín eftir því sem tímanum líður.

Fátæku fólki er refsað fyrir að eiga ekki pening. Því hærri sem skuldin er, því meira þarf að greiða fyrir hana.

Því það er samfélagslega viðurkennt að það megi hagnast á fátæku fólki.

Innheimtufyrirtæki hagnast á skuldum leigjenda. Þau hagnast á neyð annarra.

Nú sem aldrei fyrr er þörf á því að við félagsvæðum húsnæðiskerfið annars halda fjármagnseigendur áfram að hagnast á uppbyggingu húsnæðis.

Þar má nefna olíufélög sem fá byggingarrétt afhentan fyrir að fjarlægja bensínstöðvar af borgarlandinu. Allt í nafni grænna hvata.

Það er dýrt að vera fátækur en arðbært að hagnast á fátæku fólki og öðru fólki sem er í þörf fyrir húsnæði og helstu nauðsynjar.

Höfundur er félagi í Sósíalistaflokki Íslands



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Skoðun

Sigur­bogi

Dagbjört Ósk Steindórsdóttir skrifar

Sjá meira


×