Skoðun

Nal­oxone bjargar manns­lífum

Kristín Davíðsdóttir skrifar

Þann 24.nóvember sl. gerði Lára G. fentanyl faraldurinn í Bandaríkjunum að umtalsefni sínu í Bakþönkum Fréttablaðsins. Hún segist hugsa til þess með hryllingi að þessi faraldur nái fótfestu hérlendis líkt og það sé eitthvað fjarlægt sem eigi sér aðeins stað í útlöndum. Það er vissulega ánægjulegt að fólk veki máls á þessu viðfangsefni og því langar mig að taka boltann og fara yfir nokkrar staðreyndir þessu tengdar. Við sem vinnum með einstaklingum sem tilheyra þeim jaðarsetta hópi sem notar vímuefni að staðaldri vitum öll að fentanyl hefur fyrir löngu náð fótfestu hérlendis og valdið fjölda ótímabærra dauðsfalla. Síðasti faraldur sem skók samfélagið var í byrjum þessa árs og var m.a. fjallað um hann í viðtali við Hrafnhildi Ólöfu Ólafsdóttur, hjúkrunarfræðing og deildarstjóra hjá Reykjavíkurborg, sem vakti þá máls á mikilvægi þess að auka aðgengi allra að lyfinu Naloxone sem upphefur öndunarbælandi áhrif morfínskyldra lyfja. Lyfið er lífsbjargandi og ætti að vera aðgengilegt öllum enda í raun ómögulegt að misnota lyfið á nokkurn hátt – þess ber einnig að geta að sé lyfið gefið að óþörfu er það viðkomandi að meinalausu. Víða um heim hefur aðgengi að lyfinu batnað til muna en hérlendis er enn gerð sú krafa að lyfið sé skrifað út af lækni á kennitölu einstaklings sem, eðli málsins samkvæmt, heftir aðgang þeirra sem mest þurfa á því að halda að því – nefnilega notendunum sjálfum. Það að einstaklingar sem nota morfín og morfínskyld lyf hafi óheftan aðgang að Naloxon nefúða skiptir sköpum þegar ofskömmtun á sér stað. Líkt og dæmin hafa sýnt, jafnt hérlendis sem og erlendis, þá er það alls konar fólk sem notar, og misnotar, þessi lyf og það gerir það við hinar ýmsu aðstæður á hinum ýmsu stöðum. Þetta er fólk á öllum aldri og úr öllum stigum samfélagsins. Það að vera með Naloxon nefúða á sér og geta gefið meðvitundarlausum einstaklingi, hvort sem það er eldri borgari sem hnígur niður úti á götu eða ungmenni á næturklúbbi, ætti því í raun að vera sjálfsagður hlutur.

Mikil notkun morfínskyldra lyfja, þ.á.m. fentanyls á hér á landi er staðreynd og nota Íslendingar mest allra norðurlandaþjóðanna. Reynslan hefur sýnt okkur að það er hægara sagt en gert að koma í veg fyrir og/eða að stöðva þessa notkun. Við getum hins vegar beitt skaðaminnkandi inngripum til að koma í veg fyrir ótímabær dauðsföll og/eða óafturkræfan skaða af völdum þeirra.

Árlega láta að meðaltali 29 manns lífið á Íslandi af völdum lyfja. Undanfarin ár hefur fjöldinn þó verið töluvert hærri og árið 2020 var fjöldi lyfjatengdra dauðsfalla á Íslandi 37 sem þýðir 8,9 einstaklinga á hverja 100.000 íbúa. Til samanburðar má nefna að 7 einstaklingar létu lífið í umferðinni það ár. Ef það að dreifa Naloxone nefúða til þeirra sem það þurfa getur dregið úr þessum fjölda þá er til mikils að vinna. Ennfremur er mikilvægt að hafa í huga að þessar tölur eiga bara við um þá sem hafa látist. Fjöldi þeirra einstaklinga sem náðst hefur að endurlífga en hlotið hafa varanlegan skaða kemur hvergi fram.

Á meðal lykil markmiða skaðaminnkandi inngripa er að koma í veg fyrir ótímabær dauðsföll og lágmarka óafturkræfan skaða. Skaðaminnkunarverkefni Rauða krossins, Frú Ragnheiður, hefur alla burði og vilja til þess að dreifa lyfinu til þeirra sem það þurfa en sökum reglugerða og kostnaðar hefur það ekki enn náð fram að ganga.

Höfundur er hjúkrunarfræðingur og verkefnastýra Frú Ragnheiðar.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.