Handbolti

Fjör hjá Agnari í einangrun: „Þetta er það heimskulegasta sem ég hef gert“

Sindri Sverrisson skrifar
Agnar Smári Jónsson gerði sér ýmislegt til dægradvalar, lokaður inni heima hjá sér í einangrun, en verður frelsinu eflaust feginn í dag.
Agnar Smári Jónsson gerði sér ýmislegt til dægradvalar, lokaður inni heima hjá sér í einangrun, en verður frelsinu eflaust feginn í dag.

Handknattleiksmaðurinn Agnar Smári Jónsson losnar úr einangrun í dag eftir að hafa smitast af Covid-19. „Þræleðlileg“ innslög hans úr einangruninni, í Seinni bylgjunni í gærkvöld, vöktu mikla kátínu.

Agnar Smári hefur misst af síðustu leikjum Vals vegna smitsins og sást því ekki í klippunum sem sýndar voru í Seinni bylgjunni úr sigri Vals gegn Aftureldingu.

Hann var engu að síður áberandi í þættinum því reglulega sendi þáttastjórnandinn Stefán Árni Pálsson boltann heim til Agnars Smára til að komast að því hvað hann væri að bardúsa á lokakafla einangrunarinnar.

„Þetta er það heimskulegasta sem ég hef gert,“ sagði Agnar Smári í einu innslaginu, eftir að hafa gripið í rakvélina og farið í hársnyrtingu sem hann var á endanum ekkert sérstaklega stoltur af.

Klippa: Seinni bylgjan - Agnar Smári í stuði í einangrun

Agnar var einnig duglegur að taka dansspor, bæði í diskófötum og fáum fötum, skellti sér á þrekhjólið, skreytti svalirnar, og virtist skemmta sér hið besta þó að eflaust verði hann frelsinu feginn í dag.

„Svo segir fólk að það sé leiðinlegt að lenda í sóttkví og einangrun…“ sagði Jóhann Gunnar Einarsson, annar af sérfræðingum þáttarins í gær. „Reyndar hafði ég smá áhyggjur þegar hann tók rakvél og fór að raka á sér hausinn. Svo tekur hann bara varalitinn næst og hríðskotabyssuna. Bara búinn að missa vitið,“ sagði Jóhann hlæjandi en skemmtilega samantekt með innslögum Agnars má sjá hér að ofan.


Olísdeildirnar í handbolta eru á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. Olísdeildin er hluti af Stöð 2 Sport Ísland sem kostar 3.990 krónur á mánuði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×