Formúla 1

Max Verstappen fékk refsingu og ræsir sjöundi | Hamilton á ráspól

Sigurður Orri Kristjánsson skrifar
Max Verstappen er í vandræðum í Katar
Max Verstappen er í vandræðum í Katar EPA-EFE/HAMAD I MOHAMMED

Max Verstappen, sem er í forystu í keppni ökuþóra í Formúlu 1, fékk fimm sæta refsingu sem sendir hann alla leið í sjöunda sætið þegar ræst verður í kappakstrinum í Katar seinna í dag.

Verstappen fékk fimm sæta refsingu fyrir að hægja ekki á sér þegar að veifað var gulu flaggi tvisvar sinnum. Refsingin er áfall fyrir Verstappen sem átti að ræsa annar á eftir Lewis Hamilton í kappakstrinum en Verstappen, sem ekur fyrir Red Bull, leiðir keppni ökuþóra með fjórtán stigum.

Valtteri Bottas hjá Mercedes fékk einnig refsingu, en hann ræsir fimmti eftir að hafa fengið þriggja sæta refsingu. Refsing Bottas er minni en Verstappen því hann hunsaði bara gula flaggið einu sinni.

Sem fyrr segir er fjórtán stiga munur á Verstappen og Lewis Hamilton í keppni ökuþóra. Toppsætið gefur 25 stig svo Hamilton er í dauðafæri að minnka muninn á toppnum. Það liggur allavega ljóst fyrir að keppnin milli þeirra tveggja verður æsispennandi í síðustu þremur keppnunum.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.