Formúla 1

Vill ekki hjálpa liðs­félaganum að vinna heims­meistara­titilinn

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Lando Norris og Oscar Piastri keyra báðir fyrir McLaren og geta báðir orðið heimsmeistarar í fyrsta sinn.
Lando Norris og Oscar Piastri keyra báðir fyrir McLaren og geta báðir orðið heimsmeistarar í fyrsta sinn.

Það er mikil spenna í baráttunni um heimsmeistaratitilinn í formúlu 1 en næstsíðasta keppnin fer fram um helgina. Staðan er hins vegar þannig að liðsfélagar eru að keppa um heimsmeistaratitilinn.

Þegar tvær keppnishelgar eru eftir hefur Lando Norris 24 stiga forskot á bæði liðsfélaga sinn hjá McLaren, Oscar Piastri, og heimsmeistarann Max Verstappen hjá Red Bull í stigakeppni ökumanna.

Norris hefur nú fengið þau skilaboð frá Piastri að hann fái enga hjálp frá McLaren-félaga sínum við að tryggja sér heimsmeistaratitilinn í Formúlu 1.

Aðspurður hvort rætt hafi verið innan McLaren-liðsins hvort Piastri sé reiðubúinn að „fórna sér fyrir liðið“ og hjálpa Norris að tryggja sér sinn fyrsta heimsmeistaratitil, svaraði Ástralinn:

„Við áttum mjög stuttar samræður um það og svarið er nei,“ sagði Piastri og hélt áfram:



„Ég er enn jafn Max að stigum og á enn ágætis möguleika á að vinna ef hlutirnir falla með mér. Og þannig munum við nálgast þetta,“ sagði Piastri.

Verstappen var einnig spurður út í baráttu ökumanna hjá McLaren og hann styður ákvörðunina varðandi Piastri.

„Þetta er fullkomið. Það er ekki hægt að gera neitt betra en að leyfa þeim að keppa um þetta,“ sagði Verstappen.

„Af hverju ætti Oscar allt í einu ekki að fá leyfi? Ef mér hefði verið sagt þetta hefði ég ekki mætt. Ég hefði beðið þá um að fara til helvítis,“ sagði Verstappen.

Staðan lítur þó best út fyrir Norris. Ef hann fær tveimur stigum meira um helgina en annaðhvort Piastri og Verstappen þá verður hann krýndur heimsmeistari áður en lokakeppnin fer fram í Abú Dabí.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×