Körfubolti

„Að sigra með flautukörfu er sérstakt“

Atli Arason skrifar
Dominykas Milka reyndist hetja Keflavíkur í kvöld en hann tryggði sigurinn í þann mund er leikurinn rann út.
Dominykas Milka reyndist hetja Keflavíkur í kvöld en hann tryggði sigurinn í þann mund er leikurinn rann út. Vísir/Bára Dröfn

Keflavík vann Val, 79-78, í hörku spennandi leik þar sem sigurinn réðst á síðustu sekúndu leiksins þegar Dominykas Milka nær frákasti og skilar boltanum ofan í körfuna.

„Allir sigrar eru skemmtilegir en að sigra með flautukörfu er sérstakt,“ sagði Milka í viðtali við Vísi eftir leik.

Milka hefur fengið gagnrýni úr mörgum áttum fyrir slæma byrjun á tímabilinu. Í kvöld var hann þó besti leikmaður vallarins.

„Þetta er búið að vera erfið byrjun á tímabilinu, erfiðara en áður. Það er skemmtilegra að spila vel eftir að maður en búinn að fara í gegnum smá ströggl,“ svaraði Milka aðspurður hvort hann væri búinn að finna sitt gamla form.

„Ég er kannski búinn að vera í smá brasi en liðið er samt búið að vinna sex af sjö leikjum. Við sem vorum í úrslita einvíginu í fyrra erum kannski enn þá að ná okkur aðeins því það er mjög stutt á milli tímabila núna. Við erum að byggja okkur upp sem lið og það er nóg af svigrúmi til að bæta sig. Við erum með örlítið breytt lið frá því í fyrra en það er bara nóvember. Við verðum tilbúnir í apríl/maí.“

Fram undan er hlé á deildinni vegna landsleikja. Milka telur að hléið sé kærkomið fyrir lið Keflavíkur og að þessi pása verði nýtt vel til að slípa liðið saman.

„Hvíld er mikilvæg og við þurfum að finna taktinn okkar aftur. Síðustu tvö ár vorum við með sama liðið en núna eru nokkrar breytingar og þjálfarinn er að rótera liðinu öðruvísi en í fyrra. Við þurfum bara að finna okkar leik og þegar það smellur þá erum við með rosalega gott lið,“ sagði Dominykas Milka, leikmaður Keflavíkur.

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×