Handbolti

„Það er eins og hún minnki með hverjum deginum“

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Helena Rut Örvarsdóttir hefur ekki fundið sig með Stjörnunni á þessu tímabili.
Helena Rut Örvarsdóttir hefur ekki fundið sig með Stjörnunni á þessu tímabili. Vísir/Hulda Margrét

„Aðalmál þessa leiks er Stjarnan. Ég veit að ég og við erum orðin pínu eins og biluð plata með Helenu því við getum ekki mikið sett út á Evu sem er að skila sínu,“ sagði Svava Kristín Gretarsdóttir, umsjónarkona Seinni bylgjunnar í upphafi umræðunnar.

Helena Rut Örvarsdóttir hefur ekki fundið sig á þessu tímabili og hún skoraði aðeins eitt mark úr tíu skotum í tapleiknum á móti Haukum um helgina.

„Elsku Helena. Hún má bara fara í pissupásu núna eða eitthvað. Hvað er í gangi? Þú skorar ekki eitt mark úr tíu skotum, leik eftir leik eftir leik og það er eins og hún minnki með hverjum deginum. Ekkert sjálfstraust og hún er einhvern veginn að koðna niður,“ sagði Svava Kristín.

Klippa: Seinni bylgjan: Frammistaða Helenu

„Það er að hluta til það sem er að gerast þegar að heldur áfram að ganga svona illa. Hún er ekki að ná góðum leikjum, því miður. Sérstaklega af því að maður veit hvað í henni býr þá er ótrúlega leiðinlegt að horfa upp á þetta,“ sagði Solveig Lára Kjærnested, sérfræðingur í Seinni bylgjunni.

„Hún er alltof nálægt og í alltof miklum kontakt. Hún á að vera miklu fjær. Þetta er kraftlítið hjá henni og það þarf ekki mikla snertingu til að koma henni úr jafnvægi,“ sagði Solveig Lára.

Helena Rut er með 2,7 mörk að meðaltali í leik en aðeins 32 prósent skotnýtingu.

„Þetta er ekkert líkt henni og hún er bara að spila langt undir getu. Við erum ekkert að segja henni neinar fréttir. Hún veit það alveg sjálf og ætlar sér örugglega að gera betri hluti en þetta. Hún mun vonandi gera það,“ sagði Sigurlaug Rúnarsdóttir, sérfræðingur í Seinni bylgjunni.

Það má heyra spjallið um Helenu Rut hér fyrir ofan en hér fyrir neðan má einnig sjá umræðu um allt Stjörnuliðið sem hefur aðeins unnið tvo af sjö leikjum sínum á tímabilinu.

Klippa: Seinni bylgjan: Vandræði Stjörnuliðsins í veturFleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.