Umfjöllun, viðtöl og myndir: Haukar - ÍBV 36-35 | Adam hetja Hauka í miklum markaleik

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Brynjólfur Snær Brynjólfsson fagnar með Adam Hauki Baumruk eftir að hann skoraði sigurmark Hauka gegn ÍBV.
Brynjólfur Snær Brynjólfsson fagnar með Adam Hauki Baumruk eftir að hann skoraði sigurmark Hauka gegn ÍBV. vísir/vilhelm

Adam Haukur Baumruk tryggði Haukum sigur á ÍBV, 36-35, í miklum markaleik í Olís-deild karla í kvöld. Með sigrinum náðu Haukar tveggja stiga forskoti á toppi deildarinnar. ÍBV er áfram í 4. sætinu.

Haukar lentu í miklum mótbyr í seinni hálfleiks, voru mest fimm mörkum undir og fengu þrjár brottvísanir á síðustu þremur mínútum leiksins. En þeir sýndu mikla seiglu á meðan Eyjamenn fóru afar illa að ráði sínu undir lokin.

Darri Aronsson skoraði níu mörk fyrir Hauka og Adam sjö, þar á meðal sigurmarkið. Tjörvi Þorgeirsson og Brynjólfur Snær Brynjólfsson gerðu fimm mörk hvor. Aron Rafn varði sextán skot (35 prósent).

Rúnar Kárason skoraði tólf mörk fyrir ÍBV og Kári Kristján Kristjánsson sex. Petar Jokanovic varði átján skot (37 prósent) og Björn Viðar Björnsson þrjú (38 prósent).

Leikurinn var óhemju hraður í upphafi og liðin skoruðu án mikillar fyrirhafnar. Ekkert var um varnir og fátt um markvörslu. Darri var gríðarlega öflugur í upphafi leiks og skoraði fjögur af fyrstu sjö mörkum Hauka.

Liðin héldust í hendur framan af fyrri hálfleik og aldrei munaði meira en einu marki á þeim. Mikið var skorað og hraðinn mikill Á 20. mínútu fékk Heimir Óli Heimisson rautt spjald fyrir að gefa Degi Arnarssyni olnbogaskot. Að því er virtist hárréttur dómur.

Anton Gylfi Pálsson sýnir Heimi Óla Heimissyni rauða spjaldið.vísir/vilhelm

Eftir mjög rólega byrjun hrökk Petar svo sannarlega í gang síðustu tíu mínútur fyrri hálfleiks. Haukar komu sér hvað eftir annað í góð færi en Petar varði allt sem á markið kom. Á síðustu tíu mínútum fyrri hálfleiks varði hann átta skot, flest úr opnum færum.

Eyjamenn nýttu sér þessa markvörslu Petars, skoruðu fjögur mörk í röð og komust þremur mörkum yfir, 14-17. Sami munur var á liðunum í hálfleik, 17-20.

Eyjamenn skoruðu fyrstu tvö mörk seinni hálfleiks og komust fimm mörkum yfir, 17-22. Petar hélt áfram að verja frá Haukum úr hverju dauðafærinu á fætur öðru og þá töpuðu heimamenn boltanum oft klaufalega. Vörn þeirra var áfram slök og þeim virtust allar bjargir bannaðar.

Petar Jokanovic var magnaður seinni hluta fyrri hálfleiks og í upphafi þess seinni.vísir/vilhelm

Haukar gáfumst samt ekki upp. Aron Kristjánsson, þjálfari liðsins, fann loksins réttu blönduna í sókninni með því að setja Adam hægra megin og hann raðaði inn mörkum. Að sama skapi datt markvarslan hjá ÍBV niður.

Þegar um tíu mínútu voru eftir fóru Haukar í 5-1 vörn með Darra fyrir framan. Hún sló Eyjamenn út af laginu, Haukar skoruðu þrjú mörk í röð og jöfnuðu í 32-32. Aron Rafn var kominn aftur í mark Hauka á þessum tíma og hann reyndist gríðarlega mikilvægur á lokakaflanum. Hann varði fimm skot á síðustu níu mínútum leiksins.

Brynjólfur Snær kom Haukum yfir í fyrsta sinn í langan tíma, 34-33, en í næstu sókn Eyjamanna misstu Haukar tvo leikmenn af velli. Gestirnir nýttu sér það illa en náðu samt að jafna með marki Kára úr víti. Tjörvi skoraði í kjölfarið úr afar erfiðu færi en var svo rekinn af velli.

Dagur jafnaði fyrir ÍBV þegar um hálf mínúta var eftir, 35-35. Haukar fóru í sókn, boltinn endaði hægra megin hjá Adam sem lyfti sér upp og lét vaða, skoraði sitt sjöunda mark og tryggði Haukum stigin tvö. Lokatölur 36-35, Haukum í vil.

Adam Haukur skorar sigurmark Hauka.vísir/vilhelm

Af hverju unnu Haukar?

Haukar spiluðu afleita vörn í leiknum en sóknin var lengst af góð. Þeir strönduðu vissulega oft á Petar en spiluðu sig alltaf í góð færi. Aron gerði svo góðar breytingar, setti Adam hægra megin og skipti yfir í 5-1 vörn undir lokin sem gaf góða raun.

Eyjamenn hljóta samt að naga sig fast í handarbökin eftir leikinn enda voru þeir í kjörstöðu til að vinna leikinn. En sóknin undir lokin var slök og vörnin aldrei nógu góð þótt Petar hafi margoft komið gestunum til bjargar.

Hverjir stóðu upp úr?

Darri var mjög öflugur í fyrri hálfleik þegar hann skoraði sex af níu mörkum sínum. Adam var frábær í seinni hálfleik og skoraði sjö mörk úr átta skotum. Tjörvi var að mestu góður og Aron Rafn var svo sannarlega betri en enginn á lokakaflanum.

Rúnar Kárason var óstöðvandi í leiknum.vísir/vilhelm

Rúnari héldu engin bönd í sóknarleik ÍBV. Hann skoraði tólf mörk og var með frábæra skotnýtingu. Dagur stýrði Eyjasókninni af stakri prýði og Kári var öflugur á línunni að vanda. Þá átti Petar ótrúlega kafla í markinu eins og áður sagði.

Hvað gekk illa?

Varnarleikur beggja liða var ekki til útflutnings enda var 71 mark skorað í leiknum. Bæði lið gerðu fjölda sóknarmistaka í seinni hálfleik og Haukar fóru illa með mýgrút dauðafæra í leiknum. Það kom þó ekki að sök.

Aron Rafn Eðvarðsson varði vel á lokamínútum leiksins.vísir/vilhelm

Hvað gerist næst?

Það er skammt stórra högga á milli hjá Haukum en á fimmtudaginn mæta þeir Íslands- og bikarmeisturum Vals á heimavelli. Á sunnudaginn fara Haukar svo norður yfir heiðar og mæta KA. Sama dag tekur ÍBV á móti Selfossi.

Aron: Byrjunin á seinni hálfleik minnti á borðtennisleik

Aron Kristjánsson segir sínum mönnum til.vísir/vilhelm

Aron Kristjánsson, þjálfari Hauka, var ánægður með að hans menn skyldu hafa náð í sigur gegn ÍBV þrátt fyrir mikið mótlæti.

„Það er gríðarlegur karakter að ná sigri úr þessum leik. Ég var óánægður með vörnina allan leikinn. Við vorum linir og alltaf eftir á, að bregðast við einhverju sem við vissum að væri að koma,“ sagði Aron.

„Við skoruðum mikið af mörkum. Byrjunin á seinni hálfleik minnti á borðtennisleik, bæði lið misstu boltann og klikkuðu á dauðafærum. Við spiluðum okkur í mjög góð færi en klikkuðum á þeim. Við misstum þá fimm mörkum fram úr okkur en þetta var alltaf möguleiki. Við þurftum bara að fá nokkra bolta varða eða nokkrar góðar varnir. Og það gerðist undir lokin. Aron [Rafn Eðvarðsson] varði nokkra mjög góða bolta undir lokin og við settum Darra [Aronsson] fyrir framan í 5-1 vörninni. Það truflaði betur spilið milli skyttanna og við þvinguðum þá í nokkrar lélegar ákvarðanir og það var kannski lykilinn þegar uppi var staðið.“

Petar Jokanovic átti frábæra kafla í marki ÍBV og varði frá leikmönnum Hauka úr hverju dauðafærinu á fætur öðru undir lok fyrri hálfleiks og í byrjun þess seinni.

„Þetta voru þvílík dauðafæri sem við klikkuðum á á tímabili. Sóknarleikurinn var góður og hann var ekki vandamálið. Það var vörnin. Við vorum staðir og aumir.“

Þegar um tíu mínútur voru eftir breytti Aron um vörn, fór úr 6-0 vörn yfir í 5-1 vörn með Darra fyrir framan. Það virtist slá Eyjamenn út af laginu.

„Við æfðum þetta aðeins í undirbúningnum. Við fórum stundum í 5-1 vörn í fyrra, aðeins öðruvísi afbrigði, spænskt sem við fórum í í fyrri hálfleik. Í seinni hálfleik fórum við svo í annað afbrigði af 5-1 vörn með hávaxinn mann fyrir framan. Það gekk mjög vel og er klárlega eitthvað sem getur verið ágætis vopn,“ sagði Aron.

Heimir Óli Heimisson var rekinn af velli eftir tuttugu mínútur fyrir að gefa Degi Arnarssyni olnbogaskot.

„Í hálfleik sagði leikmaður við mig að hann hafi ekki gert neitt. Leikmaður ÍBV hafi klipið hann og kastað sér aftur. Ég þarf bara að skoða þetta á myndbandi,“ sagði Aron að endingu.

Grímur: Köstuðum þessu bara frá okkur

Kári Kristján Kristjánsson skoraði sex mörk úr jafn mörgum skotum.vísir/vilhelm

Grímur Hergeirsson, aðstoðarþjálfari ÍBV, sagði að Eyjamenn hefðu farið afar illa að ráði sínu gegn Haukum í kvöld.

„Við erum mjög svekktir með þetta. Við köstuðum þessu bara frá okkur. Þetta er ekkert flókið. Þetta er okkar tilfinning eftir leik. Við vorum með hann í okkar hendi en fórum illa að ráði okkar,“ sagði Grímur.

Haukar breyttu um vörn á lokakaflanum og hún virtist fipa Eyjamenn.

„Við hættum að láta boltann fljóta eins og við höfðum gert með góðum árangri. Við hægðum á, tókum ekki færin á fullu og völdum erfiðari færi. Við köstuðum þessu frá okkur,“ sagði Grímur.

Markvarslan hefur verið misjöfn hjá ÍBV á þessu tímabili en í kvöld var hún mjög góð. Grímur segir sérstaklega svekkjandi að hafa ekki fengið neitt út úr leiknum í ljósi þess.

„Markvarslan var fín á köflum en vörnin var ekki nógu góð enda fengum við á okkur 36 mörk. Það er margt sem við þurfum að skoða, fara yfir og reyna að laga,“ sagði Grímur að lokum.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira