Viðskipti innlent

Föst út í vél í yfir klukkutíma vegna veðurs

Eiður Þór Árnason skrifar
Veðrið setti svip sinn á starfsemi á Keflavíkurflugvelli í dag.
Veðrið setti svip sinn á starfsemi á Keflavíkurflugvelli í dag. Vísir/KMU

Vonskuveður hefur haft áhrif á flug Icelandair í dag og þurftu farþegar á leið frá Evrópu að bíða í rúman klukkutíma út í vél að lokinni lendingu vegna hvassviðris.

„Þegar hingað var komið þá voru vindhviðurnar enn það miklar að til að gæta öryggis bæði farþega og starfsmanna þá var ekki hægt að afgreiða vélarnar strax. Fólk var að bíða í svona hálftíma til rúmlega klukkutíma í vélunum þangað til það fór að lægja,“ segir Ásdís Ýr Pétursdóttir, upplýsingafulltrúi Icelandair. Síðasta vélin lenti á fimmta tímanum í dag eftir för frá Munchen.

Athygli vekur að flugvél Easyjet frá Luton-flugvelli í London seinkaði um hátt í níu tíma og lenti á Keflavíkurflugvelli klukkan 18:10 í kvöld í stað 9:40.

Mögulega minniháttar tafir í fyrramálið

Öllum átta flugferðum Icelandair til Keflavíkur frá Evrópu var seinkað í dag vegna veðurs og var um þriggja tíma seinkun á brottför til Kaupmannahafnar.

Þar að auki var um tveggja tíma brottför á öllum ferðum Icelandair til Bandaríkjanna síðdegis í dag en síðasta flugvélin fór í loftið klukkan 19:25. Innan við hálftíma töf var á komum tveggja véla frá Tenerife á níunda tímanum. Ásdís segir að farþegar megi svo búast við minniháttar seinkunum í fyrramálið sem afleiðing af þessu.

Hafði takmörkuð áhrif á Play

Tvær flugferðir eru á áætlun hjá Play í dag og voru farþegar með morgunflugi til Tenerife beðnir um að mæta fyrr í flugstöðina vegna veðurs. Fór vélin svo í loftið tíu mínútur á undan áætlun, að sögn Nadine Guðrúnar Yaghi, samskiptastjóra Play. 

Þá var engin seinkun á komu vélar frá Tenerife sem átti að lenda klukkan 21:55 í kvöld.

Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.