Handbolti

Grátlegt tap Arnórs og félaga | Fjórða tap Balingen í röð

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Arnór Þór Gunnarsson og félagar hans í Bergischer voru grátlega nálægt því að stela stigi af Kiel í kvöld.
Arnór Þór Gunnarsson og félagar hans í Bergischer voru grátlega nálægt því að stela stigi af Kiel í kvöld. vísir/ernir

Íslendingarnir riðu ekki feitum hesti í leikjum kvöldsins í þýsku úrvalsdeildinni í handbolta. Arnór Þór Gunnarsson og félagar hans í Bergischer töpuðu með minnsta mun gegn Kiel, 24-23, og Daníel Þór Ingason og félagar hans í HBW Balingen-Weilstetten töpuðu gegn Erlangen 25-23.

Mikið jafnræði var með liðunum er Kiel tók á móti Bergischer í kvöld, og þegar fyrri hálfleikur var um það bil hálfnaður var allt jafnt, 7-7. Heimamenn í Kiel tóku þá frumkvæðið og náðu mest fjögurra marka forskoti og fóru svo inn í hálfleikinn þremur mörkum yfir, 15-12.

Áfram héldu heimamenn að þjarma að Arnóri og félögum í seinni hálfleik og náðu mest sjö marka forystu, 22-15. Þá skoruðu gestirnir fimm mörk í röð og minnkuðu muninn í tvö mörk og æsispennandi lokamínútur framundan. 

Þegar tæplega mínúta var til leiksloka töpuðu heimamenn í Kiel boltanum og Arnór og félagar fengu því eitt tækifæri til að jafna leikinn. Niklas Landin í marki Kiel sá þó til þess að það voru heimamenn sem fögnuðu eins marks sigri, 24-23. 

Arnór Þór skoraði eitt mark fyrir Bergischer sem situr í áttunda sæti deildarinnar með níu stig eftir jafn marga leiki. 

Á sama tíma tóku Daníel Þór Ingason og félagar hans í Balingen á móti Erlangen. Nokkuð jafnræði var með liðunum, en gestirnir í Erlangen virtust þó alltaf vera skrefi á undan og unnu að lokum tveggja marka sigur, 25-23.

Daníel Þór skoraði þrjú mörk fyrir Balingen úr jafn mörgum skotum, en liðið situr í næst neðsta sæti deildarinnar með fjögur stig eftir tíu leiki.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×