Handbolti

Bjarni Ófeigur markahæstur í öruggum sigri

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Bjarni Ófeigur Valdimarsson hefur átt gott tímabil með Skövde.
Bjarni Ófeigur Valdimarsson hefur átt gott tímabil með Skövde. Skövde

Tveir leikir fóru fram í sænsku úrvalsdeildinni í handbolta í kvöld og það voru Íslendingar í eldlínunni í báðum þeirra. Bjarni Ófeigur Valdimarsson var markahæsti maður liðsins er hann og félagar hans í Skövde unnu öruggan tíu marka sigur gegn Önnereds, 33-23.

Bjarni og félagar tóku forystuna snemma leiks og um miðjan fyrri hálfleikinn var staðan orðin 11-5. Heimamenn í Skövde héldu þessu sex marka forskoti út hálfleikinn, og þegar gengið var til búningshebergja var staðan 16-10.

Heimamenn skoruðu svo fimm af fyrstu sex mörku seinni hálfleiks og voru því komnir með tíu marka forskot. Skövde náði mest 12 marka forskoti í stöðunni 26-14, og unnu að lokum góðan tíu marka sigur, 33-23.

Bjarni Ófeigur var markahæstur heimamanna með sex mörk, en Skövde situr nú í fjórða sæti deildarinnar með 14 stig eftir níu leiki, einu stigi á eftir Savehof sem er á toppnum. Bjarni og félagar hafa þó leikið einum leik minna en toppliðið.

Þá töpuðu Aron Pálsson og Daníel Freyr Andrésson naumlega gegn Malmö með liði sínu Guif.

Gestirnir í Guif leiddu lengst af, en heimamenn snéru leiknum sér í hag undir lokinn og unnu að lokum eins marks sigur, 27-26.

Aron Pálsson skoraði þrjú mörk fyrir Guif, en Daníel Freyr komst ekki á blað. Liðið situr nú í áttunda sæti deildarinnar með tíu stig eftir jafn marga leiki.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×