Handbolti

Björgvin þjálfar markverði í Þýskalandi

Sindri Sverrisson skrifar
Björgvin Páll Gústavsson varði tvö víti á síðustu 40 sekúndum leiks Vals gegn FH í gærkvöld sem endaði með jafntefli.
Björgvin Páll Gústavsson varði tvö víti á síðustu 40 sekúndum leiks Vals gegn FH í gærkvöld sem endaði með jafntefli. vísir/hulda margrét

Samhliða því að verja mark Vals og þjálfa markverði hjá félaginu sinnir Björgvin Páll Gústavsson einnig þjálfun markvarða þýska félagsins Bergischer.

Björgvin Páll segist í samtali við handbolti.is hafa leiðbeint markvörðum Bergischer frá því í sumar. Hann var leikmaður liðsins á árunum 2013-2017 og þekkir því vel til.

Björgvin er hins vegar búsettur hér á landi og sinnir vinnu sinni fyrir Bergischer því aðallega í gegnum tölvu og síma.

„Ég þekki vel til Bergsicher en það eru svipaðar áherslur í leik liðsins og þegar ég var þar á sínum tíma. Dagsdaglega þá er ég samskiptum við markverðina í gegnum tölvuna eða síma. Við förum yfir væntanlega leiki. Þegar þeim er lokið þá förum við yfir málin, frammistöðu þeirra, hvað var vel gert og hvað hafi mátt betur fara. Kryfjum leikina til mergjar,“ segir Björgvin við handbolti.is og bætir við:

„Einnig set ég upp æfingar og áhersluatriði fyrir viku í einu sem aðstoðarþjálfarinn fylgir síðan eftir.“

Björgvin segist að sjálfsögðu hafa fengið leyfi vinnuveitenda sinna á Hlíðarenda til að sinna nýja starfinu sem hann segir smellpassa við starf sitt hjá Val. „Um leið er ég kannski að stíga mín fyrstu skref í draumadjobbinu eftir að ferlinum verður lokið. Hvenær sem það verður,“ segir Björgvin.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×