Körfubolti

Elvar atkvæðamikill í naumu tapi

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Elvar Már Friðriksson var stigahæstur sinna manna í kvöld.
Elvar Már Friðriksson var stigahæstur sinna manna í kvöld. HLN

Elvar Már Friðriksson og félagar hans í belgíska liðinu Antwerp Giants tóku á móti Ionikos frá Grikklandi í fimmtu umferð riðlakeppni Euro Cup í körfubolta í kvöld. Elvar skoraði 28 stig er liðið tapaði naumlega, 90-87.

Elvar og félagar byrjuðu leikinn betur og náðu fljótt níu stiga forskoti um miðjan fyrsta leikhluta. Gestirnir í Ionikos snéru leiknum þó sér í vil undir lok leikhlutans, og að honum loknum var staðan 26-22, Ionikos í vil.

Svipaða sögu er að segja af öðrum leikhluta. Elvar og félagar náðu yfirhöndinni og komust mest í sjö stiga forskot, en gestirnir í Ionikos skoruðu átta stig gegn einu stigi heimamanna undir lok hálfleiksins og staðan var jöfn þegar gengið var til búningsherbergja, 45-45.

Elvar og félagar byrjuðu seinni hálfleikinn af miklum krafti og koruðu 17 stig gegn tveimur stigum gestanna í upphafi þriðja leikhluta. Þa tók við áhlaup gestanna þar sem Grikkirnir skoruðu 16 af seinustu 19 stigum leikhlutans og munurinn því aðeins tvö stig þegar komið var að lokaleikhlutanum, 65-63, Antwerp Giants í vil.

Liðin skiptust á að skora í fjórða leikhluta og lítið sem ekkert virtist geta skilið liðin að. Þegar um fimm mínútur voru til leiksloka var all jafnt, 76-76, og æsispennandi lokamínútur framundan. Áfram héldu liðin að skiptast á að skora, en það voru gestirnir í Ionikis sem settu niður seinustu stig leiksins og unnu að lokum nauman þriggja stiga sigur, 90-87.

Elvar og félagar sitja í efsta sæti F-riðils með átta stig, einu stigi meira en Ionikis og Sporting CP, en þeir síðarnefndu hafa spilað einum leik minna.

Elvar Már skoraði 28 stig fyrir Antwerp Giants og var stigahæsti maður liðsins. Þá tók hann einnig sex fráköst og gaf átta stoðsendingar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×