Innlent

Bændur munu taka DNA sýni úr öllum kvígum

Magnús Hlynur Hreiðarsson skrifar
Frá næstu áramótum þurfa kúabændur að taka DNA sýni úr öllum sínum kvígum. Í dag eru um 25 þúsund mjólkurkýr á Íslandi.
Frá næstu áramótum þurfa kúabændur að taka DNA sýni úr öllum sínum kvígum. Í dag eru um 25 þúsund mjólkurkýr á Íslandi. Magnús Hlynur Hreiðarsson

Kúabændur munu þurfa að taka DNA sýni úr öllum kvígum frá næstu áramótum vegna erfðamengisúrvals í nautgriparækt. Tilgangur verkefnisins er að fá betri mjólkurkýr fyrr í fjósin hjá bændum. Í dag eru um fimm hundruð kúabú í landinu og hefur þeim fækkað mikið síðustu ár.

Um 25 þúsund mjólkurkýr eru í landinu, sem er lítill stofn miðað við marga aðra stofna í nágrannalöndum okkar og kúabúin eru ekki nema rétt um fimm hundruð, enda hefur þeim fækkað mjög mikið á undanförnum árum en framleiðslan hefur hins vegar staðið í stað eða aukist. Ráðgjafamiðstöð landbúnaðarins fer fyrir verkefninu.

„Þetta snýst um það að taka upp erfðamengisúrval í íslenskri nautgriparækt, sem fer þannig fram að við tökum sýni úr gripunum. Það er svo greint og þar með er hægt að segja til um gæði gripanna strax frá fæðingu. Þetta er mjög magnað og þýðir í rauninni að við getum hætt að afkvæmaprófa nautin og tekið þau strax í notkun, sem reynd naut, sem þýðir að ættleiðarbilið styttist umtalsvert,“ segir Guðmundur Jóhannesson, ráðunautur í nautgriparækt hjá Ráðgjafamiðstöð landbúnaðarins.

Guðmundur Jóhannesson, ráðunautur í nautgriparækt, sem bindur miklar vonir við DNA sýna verkefnið.Magnús Hlynur Hreiðarsson

Guðmundur segir að sýnin fari í arfgerðargreiningar í Danmörku og eftir það verður hægt að segja til um gæði gripanna strax frá fæðingu. Með nýja verkefninu er verið að stíga stórt skref fram á við í markvissum kynbótum í nautgriparækt.

„Þetta breytir því að við getum valið gripina með meira öryggi en áður og það hraðar erfðaframförum mjög mikið. Sýnatakan er mjög einföld því bændur þurfa í rauninni bara að klippa vefjasýni úr eyranu og í framtíðinni er hugmyndin sú að við tökum sýni úr öllum kvígum, sem fæðast og það verður þá gert af bændum um leið og merkið er sett í eyrað. Ég hef miklar væntingar til þess að þetta verði bæði til mikillar framfara og auki áhuga á geri greinina skemmtilegri heldur en ella,“ segir Guðmundur enn fremur.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.