Umfjöllun: KR - Njarðvík 91-75 | Sterkur sigur KR-inga í stórleiknum

Sverrir Mar Smárason skrifar
KR-ingar unnu góðan sigur gegn sterku liði Njarðvíkinga í kvöld.
KR-ingar unnu góðan sigur gegn sterku liði Njarðvíkinga í kvöld. vísir/bára

KR og Njarðvík mættust á Meistraravöllum í Subway deild karla í körfubolta í kvöld. Njarðvíkur-liðið fór vel af stað en fljótlega tók KR yfirhöndina í leiknum, héldu forystunni til loka og lauk leiknum með 91-75 sigri KR.

Njarðvík byrjaði leikinn betur og tóku forystu snemma leiks. Vörnin var þétt og KR-ingum gekk illa að skora stig. Undir lok 1. leikhluta skoraði Brynjar Þór tvo þrista og kom KR yfir í fyrsta skipti í leiknum. Staðan 23-18 þegar liðin hófu 2. leikhluta.

KR hélt áfram þegar 2. leikhluti fór af stað og náðu mest 17-0 kafla áður en Njarðvík skoraði aftur stig. KR-liðið dreifði með sér stigunum bróðurlega á meðan það var Mario Matasovic sem hélt Njarðvík á floti með þremur þristum í leikhlutanum. Staðan í hálfleik 49-41 KR í vil.

KR-stúkan var ánægð með gang mála í hálfleiknum og mikið stuð var á meðan plötusnúðurinn spilaði lögin sín.

Njarðvíkurliðið kom grimmt út í síðari hálfleik og minnkuðu forskot KR mest niður í 4 stig en þá voru það Shawn Derrick og Þórir Þorbjarnarson sem héldu forystu fyrir KR ásamt því að varnarleikurinn var mjög öflugur.

Í 4. leikhluta tóku KR-ingar yfir leikinn, stungu af og gengu frá sigrinum. KR vann loka leikhlutann 28-13 og sigruðu leikinn að lokum með 16 stiga mun.

Stigahæstir voru tveir Njarðvíkingar. Mario Matasovic skoraði 21 stig og Fotios Lampropoulos 20. Næstir voru KR-ingarnir Þórir Þorbjarnarson og Adama Kasper Darbo með 19 stig.

Af hverju vann KR?

Þeir voru einbeittir og agaðir í varnarleiknum í kvöld. Njarðvík gekk illa að hitta úr sínum skotum en KR-liðið var vel á verði og tóku 34 varnarfráköst. KR dreifði stigunum vel á milli sín og treystu þar með ekki á stig frá einum eða tveimur leikmönnum.

Hverji stóðu upp úr?

Adama Kasper Darbo skoraði 19 stig, tók 8 fráköst og átti 6 stoðsendingar. Þórir Þorbjarnarson skoraði einnig 19 stig og tók 8 fráköst.

Hvað hefði mátt betur fara?

Njarðvík missti algjörlega dampinn sóknarlega gegn sterkri vörn KR um miðjan fyrri hálfleik. Dedrick Deon Basile var með 18,5 stig að meðaltali fyrir leikinn í kvöld en skoraði 13 stig og hitti aðeins úr 22% af þeim 18 skotum sem hann reyndi við í kvöld.

Hvað gerist næst?

Bæði lið eiga leiki í bikarnum mjög fljótt en Njarðvík spilar við Álftanes á sunnudaginn kl. 16:00 og á mánudaginn mæta KR-ingar Kelfvíkingum í Blue-höllinni kl. 19:30.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira