Körfubolti

Lakers kastaði frá sér 26 stiga forskoti og tapaði fyrir einu slakasta liði deildarinnar

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Luguentz Dort og Anthony Davis berjast um boltann í leik Oklahoma City Thunder og Los Angeles Lakers.
Luguentz Dort og Anthony Davis berjast um boltann í leik Oklahoma City Thunder og Los Angeles Lakers. AP/Garett Fisbeck

Los Angeles Lakers fer brösuglega af stað í NBA-deildinni og í nótt tapaði liðið fyrir Oklahoma City Thunders, 123-115.

Oklahoma er eitt slakasta lið deildarinnar og tapaði fyrstu fjórum leikjum sínum á tímabilinu. En þrátt fyrir að lenda 26 stigum undir gegn Lakers í nótt gáfust leikmenn Oklahoma ekki upp og unnu sinn fyrsta sigur í vetur.

Shai Gilgeous-Alexander skoraði 27 stig fyrir Oklahoma, tók níu fráköst og gaf fimm stoðsendingar. Darius Bazley skoraði tuttugu stig og Josh Giddey var með átján stig og tíu stoðsendingar. 

Anthony Davis skoraði þrjátíu stig fyrir Lakers sem var án LeBrons James sem er meiddur. Russell Westbrook var með þrefalda tvennu, tuttugu stig, fjórtán fráköst og þrettán stoðsendingar, en tapaði boltanum tíu sinnum og var hent út úr húsi á lokasekúndunum.

Þetta voru ekki einu óvæntu úrslit næturinnar. Meistarar Milwaukee Bucks töpuðu til að mynda fyrir Minnesota Timberwolves, 108-113. Giannis Antetokounmpo skoraði fjörutíu stig, tók sextán fráköst og gaf sjö stoðsendingar fyrir Milwaukee en fékk litla hjálp.

D'Angelo Russell skoraði 29 stig fyrir Minnesota og Anthony Edwards og Karl-Anthony Towns 25 stig hvor.

Miami Heat sigraði Brooklyn Nets, 93-106, í stórleik næturinnar. Bam Adebayo skoraði 24 stig fyrir Miami og Jimmy Butler var með sautján stig, fjórtán fráköst og sjö stoðsendingar. Kevin Durant skoraði 25 stig fyrir Brooklyn og tók ellefu fráköst.

Úrslitin í nótt

  • Oklahoma 123-115 LA Lakers
  • Milwaukee 108-113 Minnesota
  • Brooklyn 93-106 Miami
  • Orlando 111-120 Charlotte
  • Boston 107-116 Washington
  • Toronto 118-100 Indiana
  • New Orleans 99-102 Atlanta
  • Phoenix 107-110 Sacramento
  • Portland 116-96 Memphis
  • LA Clippers 79-92 Cleveland

NBA er á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. NBA körfuboltinn er hluti af Stöð 2 Sport erlent sem kostar 3.990 krónur á mánuði.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×