Körfubolti

Westbrook og Davis drógu Lakers-vagninn í fjarveru LeBrons

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Russell Westbrook og Anthony Davis fallast í faðma eftir sigur Los Angeles Lakers á San Antonio Spurs.
Russell Westbrook og Anthony Davis fallast í faðma eftir sigur Los Angeles Lakers á San Antonio Spurs. getty/Ronald Cortes

Russell Westbrook átti sinn besta leik í treyju Los Angeles Lakers þegar liðið vann San Antonio Spurs, 121-125, eftir framlengingu í NBA-deildinni í körfubolta í nótt.

Westbrook átti erfitt uppdráttar í sínum fyrstu leikjum með Lakers en lék vel gegn San Antonio. Hann skoraði 33 stig, tók tíu fráköst og gaf níu stoðsendingar.

Anthony Davis skoraði 35 stig og tók sautján fráköst fyrir Lakers sem lék án LeBrons James sem er meiddur. Jakob Poetl var atkvæðamestur hjá San Antonio með 27 stig og sautján fráköst.

New York Knicks vann langþráðan sigur á Philadelphia 76ers, 112-99. Þetta var fyrsti sigur Knicks á Sixers síðan 12. apríl 2017. Sixers hafði unnið fimmtán leiki í röð gegn Knicks áður en kom að leiknum í Madison Square Garden í nótt.

Kemba Walker skoraði nítján stig fyrir Knicks og Evan Fournier átján. Julius Randle var með sextán stig, ellefu fráköst og sjö stoðsendingar. Tobias Harris skoraði 23 stig fyrir Sixers, tók níu fráköst og gaf níu stoðsendingar. Joel Embiid náði sér ekki á strik, skoraði aðeins fjórtán stig og bara tvær körfur.

Nikola Jokic, besti leikmaður síðasta tímabils, fór meiddur af velli í fyrri hálfleik þegar Denver Nuggets tapaði fyrir Utah Jazz, 122-110. Á þeim fimmtán mínútum sem Jokic spilaði skoraði hann 24 stig, tók sex fráköst og gaf sex stoðsendingar.

Sjö leikmenn Utah skoruðu tíu stig eða meira í leiknum. Rudy Gobert nýtti sér fjarveru Jokic vel, skoraði 23 stig og tók sextán fráköst. Donovan Mitchell var með 22 stig. Utah hefur unnið alla þrjá leiki sína á tímabilinu.

Úrslitin í nótt

  • San Antonio 121-125 LA Lakers
  • NY Knicks 112-99 Philadelphia
  • Utah 122-110 Denver
  • Oklahoma 98-106 Golden State
  • Dallas 116-106 Houston

NBA er á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. NBA körfuboltinn er hluti af Stöð 2 Sport erlent sem kostar 3.990 krónur á mánuði.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×