Magdeburg vann fjögurra marka sigur á franska liðinu PAUC í kvöld, lokatölur 31-27. Kristján Örn fór fyrir sínum mönnum en það dugði ekki til að þessu sinni. Gísli Þorgeir skoraði tvö mörk fyrir heimamenn í Magdeburg en Ómar Ingi kom ekki við sögu að þessu sinni.
Viktor Gísli stóð vaktina í marki GOG sem vann 16 marka stórsigur á Cocks frá Finnlandi, lokatölur 46-30. Viktor Gísli varði átta skot í leiknum. Þá vann Kadetten, lið Aðalsteins Eyjólfssonar, eins marks sigur á Eurofarm Pelister, 28-27.
GOG er á toppi B-riðils með tvo sigra úr fyrstu tveimur leikjum sínum. Sömu sögu er að segja af Magdeburg í C-riðli en PAUC hefur tapað báðum sínum leikjum. Þá hefur Kadetten unnið einn og tapað einum í D-riðli.