Viðskipti innlent

Sements­­skortur á landinu sem gæti komið bygginga­iðnaðinum illa

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Vandræði við innflutning sements hefur komið söluaðilum illa. Einn þeirra hefur bara undan að þjónusta um helming viðskiptavina sinna. 
Vandræði við innflutning sements hefur komið söluaðilum illa. Einn þeirra hefur bara undan að þjónusta um helming viðskiptavina sinna.  Vísir/Hanna

Sementsskortur er yfirvofandi á landinu, sem valdið hefur steypuframleiðendum verulegum vandræðum. Framkvæmdastjóri Steypustöðvarinnar segir að fyrirtækið geti nú aðeins þjónustað helming viðskiptavina sinna og gæti skorturinn haft veruleg áhrif á byggingariðnað á landinu. 

Skortinn megi rekja til ýmissa þátta, þar á meðal vandamála hjá framleiðendum í Evrópu, himinháa kolefnisskatta, sem hafa gert sementsframleiðslu dýrari, og flutningsvanda. 

Vísir hefur í haust fjallað um ýmsan vöruskort sem hrellir landsmenn, þar á meðal skort á áldósum, magnesíumskort, sem hefur einna helst áhrif á bílaframleiðendur, brokkólí og blómkálsskort og landlægan sellerískort svo fátt eitt sé nefnt. 

Geta þjónustað um helming viðskiptavina

Nú herjar sementsskortur á landið, sem gæti haft gífurleg áhrif á byggingariðnaðinn. Björn Ingi Victorsson, framkvæmdastjóri Steypustöðvarinnar segir í samtali við Vísi, að fyrirtækið geti um þessar mundir aðeins þjónustað um helming viðskiptavina sinna vegna skortsins. 

„Við höfum ekki undan að sinna pöntunum sem koma inn. Við getum kannski þjónustað svona helming. Þetta er ekki búið að vera svona lengi hjá okkur en það eru samt rúmar tvær vikur eftir af þessum hryllingi,“ segir Björn Ingi. 

Björn segir skortinn geta haft veruleg áhrif á rekstur fyrirtækisins. 

„Ég er með meira en þrjú hundruð manns í vinnu og þetta stoppar jafnt og þétt. Þetta er mikið tjón, þú getur ímyndað þér það, með 320 manns í vinnu. Það fer að styttast í að þetta stoppi. Ég á samt enn sement en bara lítið og þarf að keyra það frá Reyðarfirði með tilheyrandi kostnaði,“ segir Björn Ingi. 

„Þrátt fyrir þetta erum við að leita lausna og erum nokkuð jákvæðir að það leysist úr þessu mjög fljótlega.“

Björn Ingi Victorsson, framkvæmdastjóri Steypustöðvarinnar. Aðsend

Skipin komi en farmurinn ekki fullur

Innflutningsaðilar eiga von á sementssendingu til landsins þann 10. nóvember en óvíst er hve mikið sement muni koma til landsins í þeirri sendingu. Í haust hafi það verið viðvarandi vandamál að sementssendingar hafi ekki verið jafn stórar og gert hefur verið ráð fyrir. 

„Við erum að fá mismikið í hverjum farmi en þetta eru svona eitt til tvö skip á mánuði sem við erum að fá. Það sem hefur breyst er að við höfum ekki verið að fá fulla farma því það hefur borið á skorti hjá okkar byrgja í Danmörku. Það er það sem er að búa til þetta gat núna, við höfum ekki verið að fá fulla farma en skipin eru að skila sér,“ segir Magnús Eyjólfsson, framkvæmdastjóri Aalborg Portland á Íslandi, í samtali við fréttastofu. 

Aalborg Portland flytur inn sement frá Danmörku og er annar tveggja stóru innflutningsaðila sements hér á landi. Fyrirtækið þjónustar meðal annars steypustöðvarnar Steypustöðina og Steinsteypuna en Sementsverksmiðjan er hinn stóri innflutningsaðilinn. 

Vona að leysist úr hnútnum 10. nóvember

Magnús segir skortinn stafa af mikill eftirspurn eftir sementi á öllum markaðssvæðum Aalborg Portlands en á sama tíma sé erfitt að fá skip til að flytja sementið á milli staða. Fyrirtækið sé með föst skip sem sinni reglulegum flutningum en erfitt hafi reynst að fá önnur skip til flutninga. 

„Þetta er mjög erfitt fyrir okkar viðskiptavini og þeirra viðskiptavini, sem eru byggingaverktakar, það er alveg ljóst ef þeir ná ekki að viðhalda fullum afköstum í steypuframleiðslu og uppsteypu,“ segir Magnús. 

Tafir hafa orðið á afhendingu sements vegna flutninga á milli landshluta.Vísir/Vilhelm

Hann gerir þó ráð fyrir að ástandið sé aðeins tímabundið og það batni þegar næsta sementssending kemur til landsins. 

„Ég á ekki von á öðru en að þetta leysist í kring um 10. nóvember. En við erum núna að flytja sement á milli landshluta, við erum með síló í Helguvík, á Akureyri og Reyðarfirði þannig að við erum að flytja sement á milli landshluta hingað á Suðvesturhornið. “

Skorturinn sé ekki einskorðaður við Ísland og nefnir Magnús það að fyrir stuttu hafi verið alger sementsskortur í Færeyjum, sem varð í heila viku. Þá sé verið að skammta sement í Danmörku og margar steypustöðvar þar þurfi að sætta sig við minni skammta en þær þurfi. 

Eiga erfitt að standa við skuldbindingar sínar

Gunnar H. Sigurðsson, framkvæmdastjóri Sementsverksmiðjunnar, sagði í samtali við Kjarnann í gær að innflutningur á sementi hafi dregist verulega saman í haust. Mikil óvissa sé íkortunum varðandi afhendingaráætlanir og eigi Sementsverksmiðjan erfitt með að standa við skuldbindingar sínar þessa stundina. 

„Við höfum flutt inn minna en við viljum og fáum ekki það magn sem við óskum okkur,“ sagði Gunnar í samtali við Kjarnann. Mikill skortur, að sögn Gunnars, sé á vörunni í Norður-Evrópu allri og framleiðsla á sementi á Norðurlöndunum hafi dregist saman á undanförnum áratugum. Áskorunin felist mest í því að fá meira sement til landsins. 

Ekki náðist í Gunnar, eða nokkurn hjá Sementsverksmiðjunni, við vinnslu þessarar fréttar. 


Tengdar fréttir

Skortur á magnesíum mun líklegast hafa mikil áhrif á framleiðslu bíla

Þegar þú sest upp í bílinn þinn að morgni til þá hugsar þú sennilega ekki um öll hráefnin sem notuð eru við framleiðslu bílsins. Þá sérstaklega málminn sem notuð er í undirvagn og byggingu bílsins. Mikill magnesíum skortur mun hugsanlega þvinga allar bílaverksmiðjur til að hætta framleiðslu fyrir lok árs, samkvæmt sérfræðingum.

Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Mesta hækkun dagsins


Félag
Br.%
Fjöldi
Velta*
BRIM
1,29
5
1.998
SJOVA
1,07
6
88.680
VIS
0,99
8
124.863
MAREL
0,93
30
984.533
KVIKA
0,76
13
167.000

Mesta lækkun dagsins


Félag
Br.%
Fjöldi
Velta*
ICEAIR
-2,41
133
483.306
ORIGO
-1,55
2
7.275
SYN
-1,55
5
12.101
REITIR
-1,16
1
341
LEQ
-0,03
2
353
Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.