XY lagði Fylki eftir tvöfalda framlengingu

Snorri Rafn Hallsson skrifar
minidegreez

XY hefur átt góðu gengi að fagna í upphafi tímabils og unnið báða sína leiki. Fylkir laut í lægra haldi gegn gríðarlega sterku liði Þórs en hafði þó betur gegn Kórdrengjum eftir framlengingu í síðasta leik sínum. Hér var því kjörið tækifæri fyrir Fylki til að ná XY að stigum, en að sama skapi gat XY haldið sigurgöngu sinni áfram með góðum leik í gærkvöldi. Lið XY er reyndara og lítur sterkara út á blaði á meðan liðsmenn Fylkis eru enn að venjast því að leika í efstu deild þar sem smávægileg mistök geta skipt miklu máli. Engu að síður sýndi Fylkisliðið mikinn styrk og stóð uppi í hárinu á XY sem þó hafði betur að lokum

Liðin mættust í Nuke kortinu en í þar geta skipta samskipti liðsmanna jafnvel skipt meira máli en bara leikskipulag. XY vann hnífalotuna í upphafi leiks og sendi Fylkismenn því í sókn (Terrorists). Fylkir fór vel af stað og vann fyrstu þrjár loturnar á sannfærandi hátt með góðu samspili og samskiptum til að koma fyrir sprengjum og draga úr varnarmætti XY. Þegar bæði lið voru orðin vel vopnuð í fjórðu lotu kom TripleG sér snoturlega fyrir hjá XY og felldi þrjá Fylkismenn á einu bretti. Lotan féll þeim í vil, sem og þær tvær næstu. Var því snemma ljóst að hvorugt liðið myndi gefa nokkuð eftir. XY leyfði Fylki ekki að komast upp með nein mistök og sigldi því örlítið fram úr í fyrri hálfleik á góðum efnahag og þéttri vörn.

Staða í hálfleik: Fylkir 6 - 9 XY

XY jók á forskotið í upphafi síðari hálfleiks, tryggði sér yfirráð á útisvæðinu og stjórnuðu hraðanum. Eftir nítján lotur var XY með 12 stig gegn 7 og allt útlit fyrir að eftirleikurinn yrði nokkuð auðveldur.  Fylkismenn gáfust þó ekki upp þegar þeim var stillt upp við vegg fór K-Dot að opna betur fyrir Fylki til að koma þeim á blað og skapa tækifæri. Minidegreez hafði þó heldur betur látið finna fyrir sér og var með 30 fellur eftir hefðbundinn leiktíma. Á móti sýndi Pat einstaka ró og yfirvegun í erfiðum stöðum og með frábærum einleik tókst honum að bjarga að því er virtist töpuðum lotum fyrir horn og halda Fylki inni í leiknum. 

Staða eftir venjulegan leiktíma: Fylkir 15 - 15 XY

Fylkir náði yfirhöndinni í upphafi framlengingar og héldu Pat og Zerq áfram að sækja mikilvægar fellur og aftengja sprengjur. XY bætti þó um betur í vörninni og í síðustu lotunni var allt undir þegar H0z1D3r var einn eftir gegn Jolla. H0z1d3r tókst að fella andstæðinginn og aftengja sprengjuna einungis millisekúndum áður en hún sprakk. Það mátti því engu muna að Fylkir ynni leikinn, en þess í stað þurfti fleiri lotur til að skera úr um sigurvegarann.

Staða eftir fyrstu framlengingu: Fylkir 18 - 18 XY

Leikurinn var enn í járnum og skiptust liðin á að vinna lotur. í fertugustu og fyrstu lotu gerðu Fylkismenn hins vegar mistök sem líklega kostuðu liðið sigurinn. TripleG hafði fellt þrjá Fylkismenn snemma og því átti XY auðvelt með að koma sprengjunni fyrir. XY voru fimm á móti tveimur Fylkismönnum sem ákváðu að reyna ekki að aftengja sprengjuna þrátt fyrir að hafa bókstaflega engu að tapa. XY tók svo næstu lotu og vann leikinn.

Lokastaða: Fylkir 20 - 22 XY

Minidegreez bar höfuð og herðar yfir aðra leikmenn á vellinum og stóð uppi með 42 fellur, að meðaltali eina í hverri lotu. XY heldur sér því enn á toppi deildarinnar með sex stig eftir þrjá leiki en Fylkir er í sjötta sæti með tvö stig. Ljóst er að liðið þarf að sækja sér meiri reynslu til að koma í veg fyrir smávægileg mistök því í efstu deild má ekkert út af bregða. Fylkir á erfiðan leik fyrir höndum gegn Dusty næsta þriðjudag en XY mætir liði Þórs og mun sá leikur skera úr um hvort liðið verður ósigrað eftir fjórar umferðir. Sýnt verður frá leikjunum á Stöð 2 Esport og á Twitch síðu Rafíþróttasamtaka Íslands.


Tengdar fréttir

Vallea hafði betur í botnslagnum við Sögu

Þriðja umferð Vodafonedeildarinnar í CS:GO hófst í gær með viðureign Vallea og Sögu. Vallea hafði betur 16-11 og er því ekki lengur taplaust.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira