Handbolti

KA/Þór áfram í Evrópubikarkeppninni

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
KA/Þór keyrði yfir KHF Istogu í fyrri hálfleik.
KA/Þór keyrði yfir KHF Istogu í fyrri hálfleik. Vísir/Hulda Margrét

Íslandsmeistarar KA/Þór og Kósovómeistarar KHF Istogu áttust við í annað sinn á tveim dögum í annarri umferð Evrópubikarkeppninnar í handbolta í dag. KA/Þór vann fyrri leikinn með fjórum mörkum, og eftir þriggja marka sigur í dag, 37-34, er liðið komið áfram.

Þrátt fyrir að leikurinn hafi farið fram í Kósovó var þetta skráður heimaleikur norðankvenna. Stelpurnar að norðan gjörsamlega keyrðu yfir Kósovómeistaranna í upphafi leiks, og um miðjan fyrri hálfleik var staðan orðin 15-5.

Nokkuð jafnræði var með liðunum næstu mínútur og þegar flautað var til hálfleiks var staðan 24-15.

Þrátt fyrir að vera samtals 13 mörkum undir þegar aðeins einn hálfleikur var eftir voru leikmenn KHF Istogu ekki búnar að gefast upp. Þær gáfu í, og þegar rúmar fimm mínútur voru til leiksloka var staðan orðin 33-31, KA/Þór í vil.

Bilið var þó of stórt og KHF Istogu átti í rauninni aldrei möguleika á að ná að brúa það að fullu. Lokatölur urðu 37-34, og KA/Þór vann því samtals með sjö mörkum og liðið er komið áfram í þriðju umferð.


Tengdar fréttir

KA/Þór með fjögurra marka sigur í fyrsta Evrópuleiknum

Íslandsmeistarar KA/Þórs heimsóttu Kósovómeistara KHF Istogu í annarri umferð Evrópubikarkeppninnar í handbolta í dag. KA/Þór reyndist sterkari aðilinn á lokakaflanum og vann að lokum góðan fjögurra marka sigur, 26-22.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×