Handbolti

Stjörnumenn spila sinn fyrsta deildarleik í 24 daga í kvöld

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Patrekur Jóhannesson stýrði Stjörnuliðinu síðast í Olís deildinni í júní þegar liðið vann Hauka á Ásvöllum en datt samt úr leik í úrslitakeppninni. Hér er Stjörnubekkurinn í þeim leik.
Patrekur Jóhannesson stýrði Stjörnuliðinu síðast í Olís deildinni í júní þegar liðið vann Hauka á Ásvöllum en datt samt úr leik í úrslitakeppninni. Hér er Stjörnubekkurinn í þeim leik. Vísir/Elín Björg

Stjarnan er eitt af þremur liðum í Olís deild karla í handbolta með fullt hús stiga. Ólíkt hinum tveimur þá hefur Stjarnan aðeins spilað einn leik. Garðbæingar tvöfalda þá tölu í Hafnarfirðinum í kvöld.

Garðbæingar spila sinn fyrsta deildarleik í meira en þrjár vikur í kvöld þegar þeir skella sér yfir til nágrannasveitafélagsins.

Haukar taka á móti Stjörnunni á Ásvöllum í stórleik þriðju umferðar. Leikurinn hefst klukkan 19.40 og verður sýndur beint á Stöð 2 Sport.

Það var mikið um löng hlé á Olís deild karla í fyrravetur vegna kórónuveirunnar en Stjörnumenn hafa líka þurft að bíða mjög lengi eftir deildarleik númer tvö á þessari leiktíð.

Það er ekki oft sem taplaus lið eru bara í áttunda sæti í deildinni sinni en það er skortur á leikjum miklu frekar en skortur á stigum sem kallar á þá stöðu Stjörnumanna.

Stjörnuliðið hefur aðeins spilað einn deildarleik og sá leikur fór fram 17. september síðastliðinn. Stjarnan fagnaði þar 36-35 sigri í æsispennandi leik. Síðan eru liðnir 24 dagar.

Patrekur Jóhannesson, þjálfari liðsins, tók úr leikbann í þessum leik í Mosfellsbæ eftir að hafa fengið útilokun í bikarleik átta dögum fyrr.

Patrekur er því í kvöld að stýra sínum fyrsta leik í Olís deildinni síðan í undanúrslitaeinvíginu á móti Haukum 11. júní. Þá vann Stjarnan 32-29 sigur á heimamönnum en datt samt út úr úrslitakeppninni.

Stjarnan hefur spilað bikarleik í millitíðinni en liðið tapaði á móti Fram í undanúrslitum Coca Cola bikarsins.

Leikurinn verður eins og áður sagði sýndur beint á Stöð 2 Sport í kvöld og strax á eftir mun síðan Seinni bylgjan gera upp alla þriðju umferðina.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.