Handbolti

Gamla liðið hans Viggós vill fá hann aftur

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Viggó Kristjánsson skoraði grimmt fyrir Stuttgart á síðasta tímabili. Meiðsli hafa haldið honum frá keppni í vetur.
Viggó Kristjánsson skoraði grimmt fyrir Stuttgart á síðasta tímabili. Meiðsli hafa haldið honum frá keppni í vetur. getty/Tom Weller

Viggó Kristjánsson, landsliðsmaður í handbolta, gæti verið á leið til síns gamla liðs, Leipzig.

Á Instagram-síðunni Handball Leaks er því slegið fram að Viggó gangi í raðir Leipzig frá Stuttgart eftir tímabilið.

Viggó gekk í raðir Leipzig frá West Wien í Austurríki fyrir tímabilið 2019-20. Hann stoppaði stutt við hjá Leipzig og færði sig fljótlega yfir til Wetzlar.

Seltirningurinn fór svo til Stuttgart í fyrra. Viggó lék stórvel með liðinu á síðasta tímabili og var fimmti markahæsti leikmaður þýsku úrvalsdeildarinnar með 230 mörk. Stuttgart endaði í 14. sæti.

Viggó fingurbrotnaði á æfingu með Stuttgart í síðasta mánuði og hefur ekkert leikið með liðinu á tímabilinu. Hann verður væntanlega ekki klár í slaginn á ný fyrr en í desember.

Viggó hefur leikið sem atvinnumaður erlendis síðan 2016. Hann lék með Randers í Danmörku í eitt ár, West Wien í tvö ár og hefur verið í Þýskalandi síðan 2019. Hinn 27 ára Viggó fór með íslenska landsliðinu á EM 2020 og HM 2021.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.