Umfjöllun,viðtöl og myndir: Valur-Fram 29-25 | Valur er Ís­lands- og bikar­meistari

Andri Már Eggertsson skrifar
Valur fagnar Coca-Cola bikarnum
Valur fagnar Coca-Cola bikarnum Vísir/Hulda Margrét

Íslandsmeistarar Vals fullkomnuðu tímabilið sitt með því að verða Coca-Cola bikarmeistarar. Valur vann fjögurra marka sigur á Fram 29-25.

Leikurinn var jafn 12-12 þegar haldið var til hálfleiks. Valur átti síðan góðan kafla í seinni hálfleik þar sem þeir gerðu sex mörk og fengu aðeins á sig eitt mark. Síðustu tíu mínútur leiksins keyrðu þeir yfir Framara og unnu leikinn 29-25.

Fram byrjaði leikinn eins vel og þeir gátu óskað sér. Það gekk einfaldlega allt upp á báðum endum vallarins. Valur klikkaði á hverju dauðafærinu á fætur öðru. Snorri Steinn Guðjónsson, þjálfari Vals, tók leikhlé þegar Fram var komið 6-0 yfir. Tumi Steinn Rúnarsson skoraði loks fyrsta mark Vals þegar sjö og hálf mínúta var liðin af leiknum.

Eftir leikhlé Snorra átti Valur góðan kafla. Þeir þéttu varnarleikinn og sóttu hratt á Framarana. Björgvin Páll Gústavsson jafnaði þá leikinn í 8-8. Valur komst síðan skömmu síðar yfir í fyrsta sinn í leiknum.

Björgvin Páll átti afar góðan leikVísir/Hulda Margrét

Breki Dagsson jafnaði leikinn rétt áður en flautað var til hálfleiks. Mark Breka var í fallegri kantinum þar sem hann þrumaði boltanum í vinkilinn. Staðan í hálfleik 12-12.

Markmenn beggja liða voru allt í öllu í fyrri hálfleik. Það var engin breyting í seinni hálfleik. Bæði Björgvin Páll Gústavsson og Lárus Helgi Ólafsson voru í bana stuði í byrjun seinni hálfleiks.

Valur náði góðum tök á leiknum um miðjan seinni hálfleik og gerðu sex mörk á meðan Fram gerði aðeins eitt mark. Staðan var þá 19-17 og þá tók Einar Jónsson, þjálfari Fram, leikhlé.

Eftir að Valur komst tveimur mörkum yfir litu þeir aldrei um öxl. Vörn liðsins var þétt og hélt Björgvin Páll Gústavsson áfram að verja eins og berserkur. Valur vann að lokum fjögurra marka sigur 29-25.

Valsmenn voru afar glaðir með sigur dagsinsVísir/Hulda Margrét

Af hverju vann Valur?

Eftir dapra byrjun sýndu Valsmenn úr hverju þeir eru gerðir og unnu sig inn í leikinn með góðum áhlaupum. 

Í seinni hálfleik lenti Valur þremur mörkum undir 13-16. Þá snerist pendúllinn við og við tók 6-1 kafli Vals sem kveikti neista í liðinu. Valur leit þá aldrei um öxl og misstu aldrei niður forystuna. 

Hverjir stóðu upp úr?

Björgvin Páll Gústavsson, markmaður Vals, var frábær í dag. Eftir leik var Björgvin Páll valinn verðmætasti leikmaður helgarinnar. 

Björgvin Páll varði 18 skot í leiknum og skoraði eitt mark. 

Lárus Helgi Ólafsson, markmaður Fram, gat gengið stoltur frá borði eftir leik. Lárus Helgi gerði allt sem hann gat til að halda Fram inn í leiknum á löngum köflum og varði ansi mörg dauðafæri. 

Hvað gekk illa?

Valur byrjaði leikinn eins illa og hægt var. Þeir skoruðu fyrsta markið sitt eftir sjö og hálfa mínútu. Fram hafði þá gert sex mörk. 

Fram missti tökin á leiknum þegar þeir komust þremur mörkum yfir um miðjan seinni hálfleik. Bekkurinn hjá Fram skilaði afar litlu framlagi. Þorsteinn Gauti Hjálmarsson var eini leikmaður Fram sem byrjaði á bekknum og skoraði mark í leiknum. 

Hvað gerist næst?

Valur fer næst í Víkina og mætir Víkingi næsta laugardag. Leikurinn hefst klukkan 14:00.

Mánudaginn 11. október fer Fram í Hertz-höllina og mætir Gróttu klukkan 18:00 í beinni á Stöð 2 Sport. 

Einar Jónsson: Fórum illa með færin okkar einum fleiri

Einar Jónsson hefði viljað sjá sína menn gera betur einum fleiriVísir/Hulda Margrét

Einar Jónsson, þjálfari Fram, var afar svekktur með silfrið í leiks lok.

„Valur er frábært lið og spiluðu góðan leik. Það sem mér fannst verða okkur að falli voru kaflarnir einum fleiri. Í stað þess að bæta í forskotið sem við höfðum þá misstum við það niður,“ sagði Einar Jónsson eftir leik.

Fram byrjaði leikinn afar vel og gerði sex fyrstu mörk leiksins. 

„Við byrjuðum frábærlega og settum tóninn. Valur komst síðan inn í leikinn. Mér fannst við  spila ágætis handbolta í dag.“

Um miðjan seinni hálfleik átti Valur góðan kafla og breyttu leiknum sér í hag verandi þremur mörkum undir. 

„Einum fleiri vorum við ekki nógu góðir. Á þessum tíma vorum við orðnir þreyttir og vantaði meiri árás á markið, við vorum bara að leita af næsta manni í stað þess að sækja sjálfir á markið.“

Fram hefur verið að spila afar vel í Coca-Cola bikarnum og var Einar stoltur af sínu liði.

 „Það býr hellingur í þessu liði. Við höldum okkar vinnu áfram og reynum að verða betri. Þetta var flott helgi þó maður hefði viljað enda með gull utan um hálsinn,“ sagði Einar að lokum. 

Myndir

Kristófer Dagur Sigurðsson skoraði 5 mörkVísir/Hulda Margrét

Snorra leist ekki á blikuna í byrjun leiksVísir/Hulda Margrét
Lárus Helgi átti góðan leik í marki FramVísir/Hulda Margrét

Magnús Óli gerði 4 mörk í leiknumVísir/Hulda Margrét
Valsmenn voru í sigurvímu eftir leikVísir/Hulda Margrét

Fram tók við silfrinuVísir/Hulda Margrét
Björgvin Páll og félagar hans í Val voru afar kátirVísir/Hulda Margrét

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira