Körfubolti

Íslenski fáninn á besta stað í höllinni hjá Davidson háskólanum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Styrmir Snær Þrastarson var frábær með Þórsliðinu á sögulegu Íslandsmeistaraári.
Styrmir Snær Þrastarson var frábær með Þórsliðinu á sögulegu Íslandsmeistaraári. Vísir/ÓskarÓ

Íslenskur körfubolti á flottan fulltrúa hjá liði Davidson í bandaríska háskólakörfuboltanum því Íslandsmeistarinn Styrmir Snær Þrastarson hóf nám í skólanum í sumar.

Styrmir Snær sló í gegn með Þór í Þorlákshöfn á síðasta tímabili og átti stóran þátt í fyrsta Íslandsmeistaratitli félagsins.

Styrmir Snær var með 14,6 stig, 6,0 fráköst og 3,3 stoðsendingar að meðaltali í leik í deildarkeppninni og hækkaði þær tölur upp í 15,5 stig, 6,4 fráköst og 3,6 stoðsendingar í úrslitakeppninni.

Styrmir hafði í framhaldinu úr mörgum skólum að velja en valdi að fara í gamla skólann NBA stjörnunnar Steph Curry.

Styrmir er ekki fyrsti Íslendingurinn í skólanum því Jón Axel Guðmundsson átti fjögur mjög flott ár í skólanum. Jón var með 13,3 stig, 6,1 fráköst og 4,4 stoðsendingar að meðaltali í 128 leikjum á fjórum árum í skólanum.

Nú er komið að Styrmi að sýna sig og sanna með liði Davidson.

Koma Styrmis í skólans þýðir líka að íslenski fáninn er á besta stað í Belk Arena sem er körfuboltahöll skólans. Þar má sjá íslenska flaggið upp í rjáum með fánum fleiri erlendra leikmanna sem eru í skólanum.

Styrmir Snær og félagar í körfuboltaliði skólans hófu formlega æfingar í þessari viku en fyrsti keppnisleikurinn verður 9. nóvember næstkomandi á móti Delaware skólanum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×