Handbolti

Arnar Daði: Mér fannst við sjálfum okkur verstir

Kristín Björk Ingimarsdóttir skrifar
Arnar Daði, þjálfari Gróttu 
Arnar Daði, þjálfari Gróttu  Vísir: Vilhelm

Arnar Daði Arnarsson, þjálfari Gróttu, var að vonum svekktur eftir þriggja marka tap á móti FH í Kaplakrika í dag. Lokatölur 25-22. 

„Ég er hás. Mér líður ekki vel. Það verður fróðlegt að heyra hvernig spekingar leikgreina þennan leik en mér fannst við sjálfum okkur verstir,“ sagði Arnar Daði í leikslok. 

„Við fengum fjögur eða fimm tækifæri til að minnka í tvö mörk í seinni hálfleik sem var ótrúlegt miðað við spilamennskuna og hversu oft við töpuðum boltanum, vorum óagaðir og fórum út úr okkar systemi varnarlega. Við vorum ekki nægilega góðir til þess að vinna FH í dag. Það er svona ágætis útskýring.“

Arnar Daði stillti upp 7 á 6 í leiknum á köflum í leiknum og var það Gróttu ekki til framdráttar.

„Ég á eftir að leikgreina. 7 á 6 gekk ekkert frábærlega en 6 á 6 gekk heldur ekkert frábærlega í fyrri hálfleik. Við spilum ekkert endilega 7 á 6 upp á sóknina.  Þetta snýst líka um varnarskiptingu og fækkun varnarskiptinga. 7 á 6 gekk ekki vel í dag, 6 á 6 einstaklings, bara allt í lagi, maður á mann. 7 á 6, 6 á 6, 5 á 6, þetta var bara ekki nægilega gott.“ 

Næsti leikur er á móti Fram og vill Arnar Daði sjá strákan eiga góðan leik. 

„Við verðum að æfa, djöflast og mæta full fókuseraðir. Fyrir okkur skiptir engu máli á móti hverjum við spilum, við verðum alltaf að eiga góðan leik. Við þurfum bara að eiga góðan leik og það er það eina sem ég bið strákana um. Það verður spennandi að sjá hvort þeir verði að ósk minni.“
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.