Skoðun

Garð­yrkju­skólinn á Reykjum rústir einar

Erna Valsdóttir skrifar

Garðyrkjuskólinn á Reykjum i Ölfusi hefur verið starfandi allt frá árinu 1939. Í 66 ár var skólinn rekinn sem sjálfstæð stofnun og var vagga garðyrkjunnar í landinu. Staðsetning skólans að Reykjum í Ölfus hefur hentað einkar vel rekstri skólans, þar hefur skólinn gott rými, byggingar eru gamlar en nokkuð góðar og hentuðu starfseminni vel og skólinn nýtur heita vatnsins sem kemur úr jörðu í landi Reykja. Reykir henta því mjög vel undir starfsemi skólans, fái hann að blómstra. Árið 2005 var Garðyrkjuskólinn að Reykjum sameinaður Landbúnaðarháskólanum á Hvanneyri.

Allt frá sameiningu Garðyrkjuskólans við Landbúnaðarháskólann hefur skólastarfinu og byggingum hans farið hnignandi vegna fjársveltis og hefur skólinn haft mjög takmarkað fé til að halda við húsakosti og fara í nýframkvæmdir. Vegna slæms ástands skólans hafa veður og vindar farið illa með skólahúsið og aðstöðu skólans. Skólanum var veitt fjármagn til endurbóta fyrir nokkru og voru gerðar nokkrar endurbætur en framkvæmdir eru þó komnar í bið þar sem framkvæmdaféð nægði ekki fyrir nema hluta þeirra endurbóta sem þörf er á. Einnig hafa komið í ljós gallar í hönnun endurbóta vegna samráðsleysis við kennara skólans sem þekkja best til þarfa skólans. Segja má að skólinn sé lamaður vegna aðstöðu-, skipulags- og kennaraleysis. Ljóst er að núverandi rektor Landbúnaðarháskólans er að takast það ætlunarverk sitt að eyðileggja þennan merka skóla enda hefur starfmönnum skólans farið fækkandi vegna stefnu rektors og starfshátta og stefnir í að fáir eða engir kennarar og starfsmenn verði eftir við skólann á næsta skólaári. Algert skilningsleysi hefur ríkt á eðli og starfi Garðyrkjuskólans í höfuðstöðvunum Landbúnaðarháskólans á Hvanneyri og hlotist mikill skaði af.

Á síðasta ári tók Lilja Alfreðsdóttir menntamálaráðherra þá afdrifaríku ákvörðum að sameina skyldi Garðyrkjuskólann Fjölbrautarskólanum á Selfossi en sú sameining hafði verið til skoðunar um tíma. Þetta var að mestu gert án samráðs við sérfræðinga Garðyrkjuskólans og án þess að aðstaðan á Reykjum fylgdi með í yfirfærslunni. Þessi sameiningarákvörðum hefur leitt í ljós að hún hentar alls ekki garðyrkjumenntun sem er á allt öðrum grunni byggð, bæði kennslu, faglega og aðstöðulega, en annað nám sem kennt er við Fjölbrautarskólann með fullri virðingu fyrir þeim mæta skóla.

Má sem dæmi nefna að algjör óvissa ríkti nú í haust um hvort nám við skólann hæfist yfir höfuð og biðu nemendur og kennarar milli vonar og ótta og var ekki ljóst fyrr en fáeinum dögum fyrir skólabyrjun að framhald yrði á kennslu þeirra nemenda sem þegar höfðu hafið nám á fyrri árum vegna manneklu.

Þessari óheillaþróun verður að snúa við strax og endurreisa þennan merka skóla sem sjálfstæða stofnun á grunni Garðyrkjuskólans á Reykjum og með þeim mannauði og sérfræðiþekkingu sem felst í núverandi kennurum og starfsmönnum skólans. Með nýjum Garðyrjuskóla verður hægt að hefja aftur til vegs og virðingar þróun og uppbyggingu garðyrkjunámsins og halda áfram að efla þekkingu á sviði ræktunar matvæla, blóma og trjáa hér á landi sem næra okkur og fegra umhverfi okkar.

Höfundur skipar 3. sæti á lista Miðflokksins í Reykjavík norður í komandi kosningum.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.