Skoðun

Í hverju felst frelsi í menntamálum?

Helga Lára Haarde skrifar

Menntamál hafa ekki verið mjög fyrirferðarmikil í aðdraganda Alþingiskosninganna. Þau eru eigi að síður gríðarlega mikilvægur málaflokkur.

Sjálfstæðisflokkurinn er málsvari frelsis, fjölbreytni og tækifæra. Það á ekki síst við í menntamálum. Óviðunandi staða menntakerfisins er flestum ljós. Lág laun kennara, erfið vinnuaðstaða, dvínandi árangur nemenda, sérstaklega drengja, líkt og kemur fram í PISA könnunum, er áhyggjuefni.

Mér þykir ljóst að það sem vantar í menntakerfið er meiri fjölbreytni, meira val og meira frelsi. Það er gjarnan sagt um hægri menn að þeirra áherslur í menntakerfinu snúi aðeins að því að fjölga einkareknum skólum. Það er vissulega einn þáttur. Með fjölbreyttari flóru skóla bjóðast börnum fleiri tækifæri og foreldrum fjölbreyttari leiðir fyrir börnin sín. Hér skiptir þó öllu máli að tryggja að fjármagn fylgi barni óháð rekstrarformi skólans sem barnið sækir. Í Reykjavík er börnum hins vegar mismunað á þann hátt að lægra fjármagn fylgir þeim börnum sem sækja einkarekna skóla.

Frelsi í menntamálum snýr þó ekki einungis að fleiri einkareknum skólum. Það þarf að veita skólum í almenna kerfinu miklu meira frelsi og auka sjálfstæði þeirra. Það þarf að draga hressilega úr miðstýringu í skólakerfinu. Það þarf að auka frelsi í námsvali og draga úr þessari miklu áherslu á lærdóm eftir fastri forskrift. Þannig virkjum við áhugasviðs hvers og eins.

Íslenskt skólakerfi er fullt af frábæru fólki, kennurum og skólastjórnendum sem þekkja langbest fjölbreyttar þarfir sinna nemenda, hvernig best er að hvetja starfsfólk í starfi og hvernig best er að reka skóla. Það þarf að gefa kennurum meira frelsi og stuðla þannig að nýsköpun í skólastarfi. Hin mikla miðstýring kemur hins vegar í veg fyrir það að sé hægt. Þá þarf að breyta launakerfi stéttarinnar þannig að skólastjórnendur geti haft meira svigrúm til að semja um laun við sitt starfsfólk. Sú tregða sem virðist vera í skólakerfinu gagnvart því að fela þessu góða fagfólki meiri ábyrgð er óskiljanleg.

Sjálfstæðisflokkurinn vill tryggja fjölbreytt rekstrarform í íslensku menntakerfi, styðja við nýsköpun og draga úr miðstýringu í skólastarfi.

Góður stuðningur við Sjálfstæðisflokkinn í kosningunum þann 25. september getur tryggt nýjar leiðir í menntamálum á Íslandi.

Fyrir því vil ég berjast.

Höfundur skipar 8. sæti á lista Sjálfstæðisflokksins í Reykjavíkurkjördæmi suður



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Skoðun

Saman gegn ríkisofbeldi

Vilhjálmur Yngvi Hjálmarsson,Örlygur Steinar Arnaldsson,Sigurhjörtur Pálmason,Simon Valentin Hirt,Kristbjörg Arna E. Þorvaldsdóttir,Ari Logn,Margrét Rut Eddudóttir skrifar

Sjá meira


×